Við notum vefkökur til að bæta upplifun þína á síðunni. Með því að halda áfram að vafra um síðuna samþykkir þú skilmála okkar um notkun á vefkökum, að öðrum kosti getur þú kynnt þér hvernig má stýra notkun þeirra.
Stjórn Sýnar
Stjórn félagsins ásamt forstjóra fer með æðsta vald í málefnum félagsins milli hluthafafunda og ber meginábyrgð á rekstri þess. Ásamt forstjóra hefur hún forystu um að móta stefnu, setja markmið og áhættuviðmið félagsins, bæði til skemmri og lengri tíma.
Jón Skaftason
Jón Skaftason er fæddur árið 1983. Hann er lögfræðingur frá Háskóla Íslands og sérhæfði sig þá í skyldum stjórnarmanna í hlutafélögum, sem hann skrifaði lokaritgerð um. Enn fremur er Jón LL.M í Corporate Law frá University College London. Hann hefur réttindi til málflutnings fyrir Héraðsdómi og hefur sinnt stundakennslu í félagarétti við Háskólann í Reykjavík og kennt þar um skyldur stjórnarmanna.
Milli áranna 2020 og 2022 var Jón framkvæmdastjóri Strengs Holding ehf, með aðsetur fyrst í Bretlandi og þá á Íslandi. Þar stýrði hann fjárfestingum Strengs í Skeljungi hf og Kaldalóni hf. Hann leiddi umbreytingu Kaldalóns hf í tekjuberandi fasteignafélag, en Kaldalón er í dag skráð á First North markaðinn. Stefnt er að skráningu á aðalmarkað. Á árunum 2012 til 2020 var Jón framkvæmdastjóri fjárfestinga 365 hf og vann hann að sölu á fjölmiðla- og fjarskiptarekstri 365 miðla til Sýnar hf (þá Fjarskipti). Í starfi sínu fyrir 365 miðla hafði Jón yfirumsjón með kaupum á erlendu afþreyingar- og íþróttaefni og samningum því tengdu. Jón starfaði sem lögmaður á skrifstofu Logos Legal Services í London á árunum 2007 til 2012.
Jón er stjórnarformaður Norr 11 Aps. Áður var hann stjórnarformaður 101 Copenhagen Apps (Danmörk), Kaldalóns (2021-2022), Sleep Solutions Ltd (Bretland) árin 2018–2021 og Murduck London Ltd (Bretland) árin 2012-2014. Jón var meðstjórnandi hjá Torgi ehf – útgáfufélagi Fréttablaðsins árin 2018-2019. Jón er stjórnarmaður í Gavia Invest ehf, eins stærsta hluthafa Sýnar hf., og Pordoi ehf., sem heldur utan um eignarhlut hans í Gavia.
Hákon Stefánsson
Hákon Stefánsson er fæddur árið 1972. Hann lauk embættisprófi í lögfræði frá HÍ 1998 og er með réttindi til málflutnings fyrir Landsrétti. Hann hefur frá árinu 2019 starfað sem forstjóri InfoCapital ehf. Áður var hann meðeigandi Lögmanna Mörkinni 2018-2019. Þá gegndi hann ýmsum störfum á árunum 2006-2018 fyrir Creditinfo Group, svo sem starfi framkvæmdastjóra á Íslandi, framkvæmdastjóra lögfræðisviðs og alþjóðamarkaða, sem og starfi aðstoðarforstjóra. Hann átti sæti í framkvæmdastjórn Intrum Justitia á árunum 2002-2006, var bæjarlögmaður á Akureyri 2000-2002 og starfaði sem löglærður fulltrúi á Lögfræðistofu Reykjavíkur 1998-2000.
Hákon situr og hefur setið í stjórnum fjölmargra innlendra og erlenda fyrirtækja auk þess að sitja í stjórnum opinberra stofnana og fyrirtækja.
Félög tengd Hákoni, þ.e. InfoCapital ehf. og Gavia Invest ehf., fara með 51.397.128 hluti í Sýn hf.
Rannveig Eir Einarsdóttir
Rannveig Eir er fædd árið 1965 og er hún með MBA gráðu frá Háskóla Íslands. Að aðalstarfi er Rannveig forstjóri Reir Verk ehf, þróunar- og byggingarfélags. Í 16 ár, eða frá árinu 2000 til ársins 2016, starfaði Rannveig sem stjórnandi hjá Icelandair. Hún var í ábyrgð fyrir þjónustu og starfsmannahaldi flugþjónustustétta félagsins sem tók yfir 800 starfsmenn þegar mest lét. Meðal verkefna Rannveigar voru veigamiklar skipulagsbreytingar í kjölfar stefnumótunar sem hún bar ábyrgð á, á sviði sölu, þjónustu, ferlum og starfsmannahaldi um borð í flugvélum Icelandair.
Rannveig var forstöðumaður flugþjónustudeildar Icelandair. Í þeirri breytingarstjórnun sem var samfara þeim verkefnum sem Rannveig innleiddi á sviði skipulags og ferla, var hún í ábyrgð fyrir samvinnu við þær stéttir sem breytingarnar höfðu áhrif á.
Frá árinu 2016 hefur Rannveig starfað á sviði fasteignaþróunar og byggingarstarfsemi, sem forstjóri og meðeigandi að Reir Verk ehf. Hún tók þátt í byggingu og stofnun Sandhótels við Laugaveg sem nú er rekið af KEA hotels. Rannveig var stjórnarmaður í félaginu Heimavöllum hf. árin 2019 og 2020.
Undanfarin fimm ár, eða frá árinu 2017, hefur Rannveig verið í stjórn Ölgerðarinnar og er enn stjórnarmaður í því félagi.
Rannveig fer með 20.650.000 hluti í Sýn hf. gegnum Fasta ehf.
Páll Gíslason
Páll Gíslason er fæddur árið 1976. Hann er rafmagns- og tölvuverkfræðingur sem hefur á rúmlega tuttugu ára ferli starfað við nýsköpun á ýmsum sviðum tækni og vísinda. Páll tók nýverið við stöðu sem Head of Trading hjá Jiko Group, sem er bandarískur fintec banki, en hann hefur undanfarin 15 ár starfað við hátíðniviðskipti (High Frequency Trading, HFT) á kauphöllum víða um heim. Páll var meðstofnandi og forstjóri World Financial Desk LLC (WFD), sem var stofnað í Los Angeles 2007 en flutti til New York City 2010. Félagið var m.a. með stærri viðskiptavökum á rafrænum mörkuðum með bandarísk ríkisskuldabréf og vaxtaafleiður, og átti einnig mikil viðskipti á kauphöllum í Bretlandi, Ástralíu og Þýskalandi. Áður en Páll snéri sér að fjármálamörkuðum hafði hann starfað fyrir þrjú sprotafyrirtæki. Páll á ekki eignarhlut í félaginu.
Salóme Guðmundsdóttir
Salóme er fædd árið 1983. Hún tók nýlega við stöðu forstöðumanns í viðskiptaþróun hjá hugbúnaðarfyrirtækinu PayAnalytics með megináherslu á alþjóðlegan vöxt fyrirtækisins, en hefur undanfarið rúmt ár starfað sem stjórnarmaður og ráðgjafi hjá Eyri Venture Managment og leiðbeinandi við MBA nám Háskólans í Reykjavík. Hún starfaði sem framkvæmdastjóri Icelandic Startups árin 2014 til 2021. Þar áður var hún forstöðumaður Opna háskólans í HR. Salóme er með BSc próf í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík og lauk AMP stjórnendanámi við IESE í Barcelona árið 2019. Salóme hefur víðtæka reynslu af nefndar- og stjórnarstörfum í íslensku atvinnulífi og situr í stjórn Viðskiptaráðs Íslands, Eyrir Ventures ehf., Beedle ehf. og Nær ehf. Salóme á ekki eignarhlut í félaginu. Það er mat tilnefningarnefndar, út frá leiðbeiningum Viðskiptaráðs Íslands um góða stjórnarhætti, að Salóme Guðmundsdóttir sé óháð félaginu, daglegum stjórnendum þess og stórum hluthöfum í félaginu.
Varamenn
- Daði Kristjánsson
- Ingibjörg Ásdís Ragnarsdóttir
Endurskoðunarnefnd
Í endurskoðunarnefnd Sýnar hf. sitja þrír nefndarmenn sem eru allir skipaðir af stjórn félagsins til eins árs í senn. Hlutverk nefndarinnar er m.a. að tryggja gæði ársreikninga og annarra fjármálaupplýsinga félagsins og óhæði endurskoðenda þess. Endurskoðunarnefnd skal yfirfara stjórnarháttayfirlýsingu félagsins ár hvert. Endurskoðunarnefnd skal skila skýrslu um störf sín til stjórnar árlega.
Endurskoðunarnefnd Sýnar hf. skipa sem stendur:
- Erik Ingvar Bjarnason, formaður nefndarinnar
- Páll Gíslason
- Hákon Stefánsson
Allir nefndarmenn eru óháðir endurskoðendum Sýnar hf., daglegum stjórnendum og stórum hluthöfum, fyrir utan Hákon Stefánsson sem tengist stórum hluthöfum í gegnum Gavia Invest ehf. og eigið eignarhald.
Starfskjaranefnd
Í starfskjaranefnd Sýnar hf. sitja þrír nefndarmenn sem eru allir skipaðir af stjórn félagsins til eins árs í senn. Hlutverk nefndarinnar er að gera tillögu um kjör stjórnarmanna fyrir aðalfund auk þess að marka stefnu um kjör forstjóra og framkvæmdastjóra. Starfskjaranefnd útbýr starfskjarastefnu Sýnar hf.
Starfskjaranefnd Sýnar hf. skipa sem stendur:
- Jón Skaftason, formaður nefndarinnar
- Salóme Guðmundsdóttir
Báðir nefndarmenn eru óháðir endurskoðendum Sýnar hf., daglegum stjórnendum og stórum hluthöfum, fyrir utan Jón Skaftason sem tengist stórum hluthöfum í gegnum Gavia Invest ehf.
Tilnefningarnefnd
Tilnefningarnefnd Sýnar hf. skipa sem stendur:
- Þröstur Ólafur Sigurjónsson, formaður nefndarinnar
- Guðríður Sigurðardóttir
- Rannveig Eir Einarsdóttir
Stjórnarhættir
Sýn fylgir þeim viðurkenndu leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja, með það að markmiði að styrkja innviði Sýnar hf. og auka gagnsæi.
Siðareglur
Stjórn Sýnar vinnur eftir siðareglum félagsins en þær má nálgast hér ásamt helstu reglum, skilmálum og öðru verklagi.