Við notum vefkökur til að bæta upplifun þína á síðunni. Með því að halda áfram að vafra um síðuna samþykkir þú skilmála okkar um notkun á vefkökum, að öðrum kosti getur þú kynnt þér hvernig má stýra notkun þeirra.

Þórir Guðmundsson

Fréttastjóri

27. maí 2018

Vel heppnuð kosningavakt

Starfsfólk fréttastofu safnaðist saman inn í myndveri að lokinni tæplega fjögurra klukkustunda útsendingu á kosninganótt til að fagna vel heppnuðu verkefni.

Hver sigraði í kosningunum? Okkur finnst svarið augljóst: Við.

Valinn maður var í hverju rúmi þegar starfsmenn fréttastofu miðluðu hörkupennandi kosningafréttum til almennings um helgina. Um 80 manns komu að verkefninu með einhverjum hætti, frá því að standa vaktina í myndveri í að koma niðurstöðum inn á Vísi með leifturhraða. Í þessu fyrsta stóra verkefni fréttastofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar eftir eigendabreytingarnar var markmiðið að vera fyrst með birtingu talna, fanga stemninguna hjá framboðunum um nóttina og greina stöðuna af fagmennsku: Með öðrum orðum að sýna bæði snerpu, styrk og lýðræðislega ábyrgð í harðri samkeppni við ríkisrekinn keppinaut.

Á einum mánuði flutti fréttastofa um 400 fréttir af kosningabaráttunni um allt land svo eftir var tekið. Fréttamenn fóru í fréttaöflun á bæði litla staði og stóra og í einum 20 mínútna þætti á Stöð 2 voru hvorki fleiri né færri en 43 viðmælendur.

Eins og svo oft í sögu fréttastofunnar þá voru kosningarnar teknar með áhlaupi. Á tveimur mánuðum var fengin grafíktölva og hönnuð kosningagrafík, sem birti upplýsingar með afar skýrum hætti á kosninganótt. Með því að safna 650 ljósmyndum af frambjóðendum í 22 kjördæmum gátu Stöð 2 og Vísir birt myndir af nýkjörnum bæjar- og borgarfulltrúum strax eftir að tölur voru lesnar upp.

Fimm fréttateymi fóru á milli kosningavaka framboðanna alla nóttina og sýndu, í beinni útsendingu, bæði ofsagleði og sár vonbrigði, sem ætíð fylgja kosningum. Oddvitar og flokksformenn spáðu í spilin á fréttastofunni á meðan þeir biðu eftir boði um að fara í viðtalssettið í kjallaranum.

Þeir sem ekki treystu sér til að vaka til hálf sjö um morguninn, þegar lokatölur voru birtar í Reykjavík, fengu fréttirnar beint í æð í fréttatíma á Stöð 2 klukkan tíu. Með því að hvíla hluta starfsliðs fréttastofu um kvöldið og nóttina var hægt að bjóða almenningi upp á ferskar fréttir af kosningunum þegar í morgunsárið og umræður í Sprengisandi, sem var í fyrsta sinn sendur út bæði á Bylgjunni og Vísi og á Stöð 2.