Við notum vefkökur til að bæta upplifun þína á síðunni. Með því að halda áfram að vafra um síðuna samþykkir þú skilmála okkar um notkun á vefkökum, að öðrum kosti getur þú kynnt þér hvernig má stýra notkun þeirra.

Yngvi Halldórsson

Forstjóri

5. janúar 2023

Sesselía Birgisdóttir ráðin framkvæmdastjóri hjá Vodafone

Sesselía Birgisdóttir hefur verið ráðin sem framkvæmdastjóri sölu-, þjónustu- og markaðsmála Vodafone. Sesselía hefur setið í stjórn Sýnar hf. frá mars 2022 og mun í framhaldinu víkja úr stjórn þess. Fram að aðalfundi 2023 mun varamaður í stjórn verða kallaður inn í hennar stað.

Yngvi Halldórsson, forstjóri: „Við bjóðum Sesselíu innilega velkomna til starfa. Framkvæmastjóri sölu-, þjónustu- og markaðsmála er ný staða innan fyrirtækisins og það er afar dýrmætt að fá eins reynslumikla manneskju og Sesselía er til starfa.

Hún mun leiða sóknarvegferð okkar með áframhaldandi áherslu á framúrskarandi þjónustu við viðskiptavini á bæði einstaklings- og fyrirtækjamarkaði. Sesselía hefur viðamikla reynslu í umbreytingu á þjónustu með nýtingu á stafrænni tækni ásamt því að hafa unnið með mörg stór íslensk vörumerki. Við þekkjum Sesselíu vel og hún fyrirtækið því við höfum átt farsælt samstarf með henni í stjórn Sýnar frá mars á síðasta ári.“

Sesselía kemur til Sýnar frá Högum þar sem hún starfaði sem forstöðumaður nýsköpunar- og markaðsmála. Hún hefur einnig starfað sem framkvæmdastjóri þjónustu- og markaða hjá Íslandspósti þar sem hún leiddi umfangsmiklar breytingar. Þar áður starfaði hún sem forstöðumaður stafrænna miðla og markaðsmála hjá Advania. Sesselía bjó lengi í Svíþjóð þar sem hún stofnaði og rak fyrirtækið Red Apple Apartments og þekkir hún því vel til alþjóðlegs umhverfis. Sesselía er með tvær mastersgráður frá Háskólanum í Lundi, annars vegar í Alþjóðlegri markaðsfræði og vörumerkjastjórnun og hins vegar í Stjórnun mannauðs með áherslu á þekkingar- og breytingarstjórnun. Að auki hefur Sesselía setið í fjölda stjórna og situr nú í stjórn hugbúnaðarfyrirtækisins AGR Dynamics. Sesselía mun hefja störf í byrjun febrúar.

Sesselía Birgisdóttir nýr framkvæmdastjóri: „Vodafone er spennandi þjónustufyrirtæki sem gerir yfir hundrað þúsund Íslendingum kleift að tengjast fólki og umheiminum á hverjum degi bæði í leik og starfi. Ég hef fengið að kynnast félaginu í gegnum stjórnarsetu síðasta árið og er ljóst að félagið byggir á sterkum grunni. Ég hef mikla trú á framtíðarvegferð fyrirtækisins og hlakka til að virkja sóknartækifærin með því flotta fólki sem þar starfar. Ég brenn fyrir framúrskarandi þjónustu og virku samtali við viðskiptavini og tel að reynsla mín og þekking eigi eftir að nýtast vel í þessu starfi.“