Við notum vefkökur til að bæta upplifun þína á síðunni. Með því að halda áfram að vafra um síðuna samþykkir þú skilmála okkar um notkun á vefkökum, að öðrum kosti getur þú kynnt þér hvernig má stýra notkun þeirra.

Guðfinnur Sigurvinsson

Samskiptastjóri

29. mars 2019

Samningur endurnýjaður um Mjólkurbikarinn

Skálað í mjólk

Fulltrúar Mjólkursamsölunnar og Sýnar hf. sem á m.a. Stöð 2 Sport og Vísi hafa skrifað undir nýjan eins árs samning um að bikarkeppnir karla og kvenna í knattspyrnu heiti áfram Mjólkurbikarinn. Bikarkeppnin hét þessu nafni frá 1986 til 1996 en Mjólkurbikarinn sneri svo aftur síðastliðið sumar við góðar undirtektir.

Mjólkurbikar karla hefst 10. apríl næstkomandi með viðureign Kára og Hamars í Akraneshöllinni en fyrstu tvær umferðirnar fara fram í apríl. Um mánaðamótin fara svo 32-liða úrslitin fram en þá koma lið úr Pepsi Max-deild karla til sögunnar. Í kvennaflokki hefst Mjólkurbikarinn þann 3. maí með þremur leikjum. Liðin tíu úr Pepsi Max-deild kvenna hefja svo þátttöku í 16-liða úrslitum sem hefjast 31. maí.

„Við vorum mjög ánægð með að endurvekja Mjólkurbikarinn í fyrra og fengum mjög góð viðbrögð á það. Keppnin var þar að auki mjög skemmtileg og fór vel fram. Við vorum spennt að taka þátt í þessu aftur og um leið viljum við vekja athygli á því að mjólk er einhver besti íþróttadrykkur sem hægt er að fá,“ sagði Ari Edwald, forstjóri MS við tækifærið.