Við notum vefkökur til að bæta upplifun þína á síðunni. Með því að halda áfram að vafra um síðuna samþykkir þú skilmála okkar um notkun á vefkökum, að öðrum kosti getur þú kynnt þér hvernig má stýra notkun þeirra.

Guðfinnur Sigurvinsson

Samskiptastjóri

1. maí 2018

Neytendur njóta ávinnings af samruna Vodafone og 365

Vörumerki Sýn hf.

Frá og með morgundeginum stækka valdir sjónvarpspakkar Stöðvar 2 og verð á öðrum lækkar frá og með næsta reikningi til viðskiptavina. Stök áskrift að Stöð 2 Sport verður í boði á 9.990 kr. og Sportpakkinn á 11.990 kr. Áður var einungis hægt að fá aðgengi að íþróttaefni Stöðvar 2 í gegnum Sportpakkann á 14.990 kr. Streymisveitan Stöð 2 Maraþon stækkar og verð lækkar í 1.990 kr. úr 2.990 kr. sem er orðið samkeppnishæft við erlendar streymisveitur. Skemmtipakkinn stækkar með miklu magni af ólínulegu efni fyrir alla fjölskylduna án þess að verð breytist. Einnig mun stök áskrift að Stöð 2 lækka í 6.990 kr. í stað 8.990 kr. áður.

Nú fimm mánuðum eftir sameiningu Vodafone og miðla 365 njóta því neytendur og viðskiptavinir fyrirtækjanna ávaxta samrunans með skýrum hætti. Með þessu hyggst fyrirtækið gefa enn fleirum kost á að gerast áskrifendur að hágæða íslensku og erlendu sjónvarpsefni og íþróttum.

Mikil vinna hefur átt sér stað innan Sýnar frá sameiningu Stöðvar 2, Bylgjunnar og annarra miðla 365 og Vodafone með það að markmiði að skila öllum haghöfum miklum ávinningi, ekki síst viðskiptavinum okkar hvort sem kemur að gæðum, verði eða þjónustu. Stefnt er að flutningar fjölmiðlasviðs Sýnar hefjist úr Skaftahlíð nú fyrir sumarið og að þeim verði lokið fyrir árslok með tilfærslu allrar starfsemi og myndvera í nýjar höfuðstöðvar sameinaðs fyrirtækis að Suðurlandsbraut 8-10.

„Með þessum breytingum erum við að sækja fram með Stöð 2 á sviði sjónvarpsþjónustu. Allir eiga að geta fundið þjónustu við sitt hæfi og notið íslensks og erlends gæðaefnis. Við vonum að þessum breytingum verði vel tekið af neytendum og geti þannig stutt sterkari samkeppnishæfni íslenskrar fjölmiðlunar og menningar til hagsbóta fyrir landsmenn alla,“ segir Stefán Sigurðsson forstjóri Sýnar.

„Það er gleðilegt að geta bæði aukið gæði þjónustunnar og breytt verðum fyrir neytendur. Það er mikill kraftur í fjölmiðlum okkar og starfsfólki þessa dagana og við lítum á þessar breytingar sem staðfestingu á nýju upphafi Stöðvar 2 og allra okkar miðla. Við vonumst til að breytingarnar fjölgi þeim sem fá að njóta okkar frábæra efnis,“ segir Björn Víglundsson framkvæmdastjóri Miðla Sýnar.