Við notum vefkökur til að bæta upplifun þína á síðunni. Með því að halda áfram að vafra um síðuna samþykkir þú skilmála okkar um notkun á vefkökum, að öðrum kosti getur þú kynnt þér hvernig má stýra notkun þeirra.

Yngvi Halldórsson

Forstjóri

29. september 2023

Kaup Ljósleiðarans á stofnneti Sýnar samþykkt

Samkeppniseftirlitið hefur í dag birt samrunaaðilum ákvörðun þar sem kaup Ljósleiðarans ehf. á stofnneti Sýnar hf. eru samþykkt án skilyrða. Með þessu er síðasta fyrirvara í samningi félaganna aflétt en áður hafði fyrirvörum um m.a. áreiðanleikakönnun og fjármögnun kaupsamningsins verið aflétt.

Eins og áður hafði verið greint frá er umsamið kaupverð 3.000 m.kr. Fyrsti hluti kaupverðs verður greiddur við afhendingu. Eftirstöðvar greiðast í áföngum á næstu mánuðum. Kaupverð skal að fullu greitt eigi síðar en að tólf mánuðum liðnum frá gildistöku kaupsamnings. Hinar seldu eignir eru bókfærðar á 564 m.kr. og nemur söluhagnaður því 2.436 m.kr. og mun bókfærast að fullu við afhendingu.  

Samhliða kaupsamningi var gerður þjónustusamningur milli félaganna til 12 ára um heildsöluaðgang og þjónustu yfir burðar- og aðgangsnet Ljósleiðarans, sem og þjónustu um nettengingar til útlanda.

Gert er ráð fyrir að viðskiptin hafi jákvæð áhrif á rekstrarkostnað Sýnar um 100 m.kr. nettó á ári. Þá lækki árleg fjárfestingaþörf í kringum 120 m.kr. yfir samningstímann.

Yngvi Halldórsson, forstjóri Sýnar hf.:

„Það er ánægjulegt að meðhöndlun málsins hjá Samkeppniseftirlitinu er lokið og Sýn getur afhent Ljósleiðaranum okkar öfluga stofnnet sem félagið hefur byggt upp síðustu rúmlega 20 ár. Með góðum þjónustusamningi og hagstæðum kjörum tryggjum við okkur aðgang að öruggum tengingum, auknum hraða og háu þjónustustigi næstu 12 árin með áherslu á hámarks upplifun viðskiptavina.

Þessi einföldun á rekstri innviða Sýnar skilar sér í lægri fjárfestingaþörf og lægri rekstrarkostnaði til framtíðar. Viðskiptin munu styrkja efnahag og lausafjárstöðu Sýnar hf. og gera félagið enn betur í stakk búið að sækja fram og auka markaðshlutdeild á fjarskipta- og fjölmiðlamarkaði.“