Galopin sjónvarpshelgi hjá Sýn – Vertu með í gleðinni
Helgina 25.-27. maí næstkomandi verður sjónvarpsdagskráin opin hjá Sýn. Sjónvarpsstöðvarnar sem verða í opinni dagskrá eru Stöð 2, Stöð 3, Stöð 2 Krakkar, Stöð 2 Bíó, Stöð 2 Sport, Stöð 2 Sport 2, Stöð 2 Sport 3 og Stöð 2 Sport 4 auk Golfstöðvarinnar. Sem sagt allar innlendu áskriftarstöðvarnar okkar í opinni dagskrá.
Í boði verður sannkölluð sjónvarpsveisla. Á Stöð 2 Sport geta íþróttaunnendur til dæmis horft á úrslitaleik í Meistaradeild Evrópu á laugardaginn, þar sem stórveldin Liverpool – Real Madrid etja kappi. Á sunnudeginum fara fram tveir leikir í Pepsideild karla en þar mætast Keflavík-ÍBV annars vegar og Valur-Breiðablik hins vegar. Undanúrslitin í NBA-deild bandaríska körfuboltans fara þá fram um helgina og einnig bein útsending frá Formúlu 1 kappakstrinum í Mónakó.
Á Stöð 2 á föstudagskvöldið verða úrslitin í American Idol haldin með glæsibrag. Á laugardaginn, að kvöldi kjördags, verður þrælspennandi Kosningasjónvarp Stöðvar 2 á sínum stað þar sem fréttamenn miðla fyrstu tölum um leið og þær liggja fyrir og brjóta niðurstöðuna til mergjar. Satt eða logið, gamanþáttur í umsjón Benedikts Valssonar, verður sýndur á undan kosningavökunni en til að fyrirbyggja allan misskilning er rétt að taka fram að heiti þáttarins tengist kosningunum ekkert.
„Núna þegar sumardagskráin á Stöð 2 er að byrja með nýjum og spennandi þáttum frá BBC á borð við Great British Bake Off og Silent Witness, íslenskri dagskrárgerð eins og Dýraspítalanum, Fyrir Ísland og Satt eða Logið fannst okkur rétt að gefa landsmönnum kost á að kynnast dagskránni okkar betur. Hún er nú í boði á nýjum lækkuðum verðum og við vonum að allir áhorfendur njóti vel. Hvað er annars betra á svona rigningasumri en góð dagskrá í sjónvarpinu?,“ spyr Jóhanna Margrét Gísladóttir dagskrárstjóri Stöðvar 2 glaðbeitt.