Við notum vefkökur til að bæta upplifun þína á síðunni. Með því að halda áfram að vafra um síðuna samþykkir þú skilmála okkar um notkun á vefkökum, að öðrum kosti getur þú kynnt þér hvernig má stýra notkun þeirra.

Guðfinnur Sigurvinsson

Samskiptastjóri

12. júlí 2018

Fyrsti áfangi 5G kerfis á Íslandi kominn í loftið

Höfuðstöðvar Sýnar að Suðurlandsbraut í Reykjavík

Vodafone á Íslandi, sem starfar undir hatti Sýnar, hefur gangsett fyrstu sendana sem byggja á fimmtu kynslóð farsímakerfa, það er 5G. Um er að ræða svokallaða léttbandstækni eða Narrowband IoT sem er hönnuð sérstaklega með samskipti tækja í huga. Þetta eru fyrstu skrefin í 5G væðingu félagsins en almennir viðskiptavinir okkar verða einskis varir sem stendur og merkið á farsímanum breytist til dæmis ekki enn um sinn.

GSM Association hefur gefið út skýrslu þar sem fram kemur að léttbandstæknin, fyrsti staðallinn í 5G tækninni, sé mikilvægur þáttur í 5G þróun næstu ára. Vodafone á Íslandi er nú með í vinnslu nokkur nýsköpunarverkefni sem nýta sér þessa nýju tækni, s.s. snjallvæðing borgarsamfélagsins og fleira. Slíkar tæknilausnir eiga eftir að verða órjúfanlegur hluti hversdagslífsins innan fárra ára.

Helstu eiginleikar léttbandstækninnar eru framúrskarandi og einstök drægni í dreifingu og mjög lág orkuþörf. Þannig verður hægt að framleiða mjög ódýran búnað með innbyggðum rafhlöðum sem endast í 12-15 ár án þess að þurfa að tengjast rafmagni á annan hátt.  Búnaðurinn mun virka á stöðum eins og kjöllurum þar sem annað farsímasamband er ekki til staðar, svo og á dreifbýlum svæðum með sömu vandamál.