Við notum vefkökur til að bæta upplifun þína á síðunni. Með því að halda áfram að vafra um síðuna samþykkir þú skilmála okkar um notkun á vefkökum, að öðrum kosti getur þú kynnt þér hvernig má stýra notkun þeirra.

Sýn

6. september 2023

Bára Hlín nýr forstöðumaður hjá Sýn

Bára Hlín Kristjánsdóttir hefur verið ráðin forstöðumaður Verkefnastofu og ferlaumbóta hjá Sýn. Bára mun veita forstöðu öflugu teymi verkefnastjóra og ferlaumbótasérfræðinga sem leiða áfram lykilbreytingarverkefni félagsins. Teymið vinnur náið með mannauði, viðskiptaþróun, vörustjórnun, upplýsingatækni og fjölmiðlalausnum Sýnar sem vinna þvert á rekstrareiningar félagsins.

„Við erum mjög ánægð með að fá Báru til liðs við okkur, hún er með alþjóðlega reynslu í stórum umbreytingarvegferðum, verkefnastýringu og umfangsmiklum ferlaumbótum. Þá er hún með mikinn metnað og drifkraft fyrir nýsköpun og faglegri verkefnastýringu. Við hjá Sýn erum á sóknar- og breytingarvegferð með upplifun viðskiptavina að leiðarljósi og hennar reynsla mun nýtast félaginu vel.“ segir Hulda Hallgrímsdóttir framkvæmdastjóri Nýsköpunar og reksturs hjá Sýn.

Bára kemur til Sýnar frá Marel þar sem hún hefur síðastliðin 5 ár leitt víðtæk og flókin alþjóðleg umbreytingarverkefni. Í því starfi tók hún þátt í að móta faglega verkefnastjórnun fyrir Marel, og leiddi hópa verkefnastjóra og ferlasérfræðinga við að koma á fót sérhæfðri aðfangakeðju fyrir þjónustusvið sem þjónar viðskiptavinum um allan heim. Hún hefur sérhæft sig í breytingastjórnun og stafrænni umbreytingu undanfarin ár, með tilheyrandi áherslu á einföldun og samræmingu ferla í flóknu tækniumhverfi. Hún er með meistaragráðu í verkefnastjórnun frá Háskólanum í Reykjavík, og sat í stjórn faghóps Stjórnvísi um breytingastjórnun 2021-2022. Hún vann á árunum 2009-2018 á sviði markaðs- og sölumála í hugbúnaðarþróun, og er meðstofnandi handverksbrugghússins Álfs.

„Sýn er fyrirtæki á afskaplega spennandi stað og ég hlakka til að koma inn í þau metnaðarfullu verkefni sem liggja fyrir með það að markmiði að bjóða viðskiptavinum Sýnar framúrskarandi þjónustu og virði í síbreytilegu umhverfi. Samstilling viðskiptahagsmuna, ferla, gagna, og upplýsingatækni í flóknum umbreytingum er mér hjartans mál ásamt því að passa vel upp á fólkið sem aðlagast þarf hröðum breytingum.“ segir Bára Hlín Kristjánsdóttir.