Við notum vefkökur til að bæta upplifun þína á síðunni. Með því að halda áfram að vafra um síðuna samþykkir þú skilmála okkar um notkun á vefkökum, að öðrum kosti getur þú kynnt þér hvernig má stýra notkun þeirra.

Yngvi Halldórsson

Forstjóri

29. nóvember 2022

Alda og Hulda nýir framkvæmdastjórar

Sýn hf. hefur ráðið þær Öldu Sigurðardóttur og Huldu Hallgrímsdóttur inn í framkvæmdastjórn félagsins. Alda hefur starfað sem mannauðsstjóri félagsins síðan í mars og tekur nú sæti í framkvæmdastjórn. Hulda hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri nýsköpunar- og rekstrar og kemur frá Össuri. Hún tekur við fyrra starfi Yngva Halldórssonar núverandi forstjóra og fyrrverandi framkvæmdastjóra rekstrarsviðs.

Alda 2

Alda Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri mannauðs

Alda hefur starfað sem mannauðsstjóri Sýnar síðan í mars, en þar áður starfaði hún sem stjórnendaþjálfari í eigin fyrirtæki Vendum í 11 ár. Hún hefur þjálfað og aðstoðað fjölda stjórnenda við farsæla innleiðingu og uppbyggingu á fyrirtækjamenningu í mörgum af stærstu fyrirtækjum landsins en einnig víða erlendis. Áður starfaði hún sem aðstoðarmaður rektors Háskólans í Reykjavík og þar á undan sem kynningar- og samskiptastjóri skólans. Alda starfaði sem viðskiptastjóri hjá fyrirtækinu SJÁ, fræðslustjóri VR og stundakennari við viðskiptadeild Háskóla Íslands. Hún kenndi einnig við MBA námið í HR og hefur haldið fjölda stjórnunartengdra námskeiða við Opna háskólann. Alda er stjórnmála- og atvinnulífsfræðingur frá Háskóla Íslands, lauk námi í stjórnendamarkþjálfun frá Opna Háskólanum í HR og Corporate Coach University ásamt því að vera með MBA gráðu frá HR.

Hulda 2

Hulda Hallgrímsdóttir, framkvæmdastjóri nýsköpunar- og rekstrar

Hulda hefur alþjóðlega reynslu af rekstri, stórum umbreytingaverkefnum, gæðamálum, kerfisinnleiðingum og fleira frá Össuri þar sem hún hefur starfað síðastliðin 11 ár. Í starfi sínu sem forstöðumaður á rekstrarsviði hefur áhersla hennar verið m.a. á gæðamál, innleiðingu regluverks lækningatækja, öryggismál og sjálfbærni þvert yfir fyrirtækið á alþjóðavísu. Þar áður starfaði hún sem verkefnastjóri í alþjóðlegum umbreytingaverkefnum þar sem áhersla var á að umbylta ferlum og innleiða nýtt vinnulag og tækni. Áður en hún kom til Össurar starfaði hún á upplýsingatæknisviði og þróunarsviði Landsbankans við að innleiða nýja ferla og tæknilausnir sem starfsmaður verkefnastofu. Hún er með B.Sc. og M.Sc. gráðu í iðnaðarverkfræði með áherslu á hermun og bestun frá Háskóla Íslands.