Yngvi Halldórsson

Forstjóri

29. nóvember 2022

Alda og Hulda nýir framkvæmdastjórar

Sýn hf. hefur ráðið þær Öldu Sigurðardóttur og Huldu Hallgrímsdóttur inn í framkvæmdastjórn félagsins. Alda hefur starfað sem mannauðsstjóri félagsins síðan í mars og tekur nú sæti í framkvæmdastjórn. Hulda hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri nýsköpunar- og rekstrar og kemur frá Össuri. Hún tekur við fyrra starfi Yngva Halldórssonar núverandi forstjóra og fyrrverandi framkvæmdastjóra rekstrarsviðs.

Alda 2

Alda Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri mannauðs

Alda hefur starfað sem mannauðsstjóri Sýnar síðan í mars, en þar áður starfaði hún sem stjórnendaþjálfari í eigin fyrirtæki Vendum í 11 ár. Hún hefur þjálfað og aðstoðað fjölda stjórnenda við farsæla innleiðingu og uppbyggingu á fyrirtækjamenningu í mörgum af stærstu fyrirtækjum landsins en einnig víða erlendis. Áður starfaði hún sem aðstoðarmaður rektors Háskólans í Reykjavík og þar á undan sem kynningar- og samskiptastjóri skólans. Alda starfaði sem viðskiptastjóri hjá fyrirtækinu SJÁ, fræðslustjóri VR og stundakennari við viðskiptadeild Háskóla Íslands. Hún kenndi einnig við MBA námið í HR og hefur haldið fjölda stjórnunartengdra námskeiða við Opna háskólann. Alda er stjórnmála- og atvinnulífsfræðingur frá Háskóla Íslands, lauk námi í stjórnendamarkþjálfun frá Opna Háskólanum í HR og Corporate Coach University ásamt því að vera með MBA gráðu frá HR.

Hulda 2

Hulda Hallgrímsdóttir, framkvæmdastjóri nýsköpunar- og rekstrar

Hulda hefur alþjóðlega reynslu af rekstri, stórum umbreytingaverkefnum, gæðamálum, kerfisinnleiðingum og fleira frá Össuri þar sem hún hefur starfað síðastliðin 11 ár. Í starfi sínu sem forstöðumaður á rekstrarsviði hefur áhersla hennar verið m.a. á gæðamál, innleiðingu regluverks lækningatækja, öryggismál og sjálfbærni þvert yfir fyrirtækið á alþjóðavísu. Þar áður starfaði hún sem verkefnastjóri í alþjóðlegum umbreytingaverkefnum þar sem áhersla var á að umbylta ferlum og innleiða nýtt vinnulag og tækni. Áður en hún kom til Össurar starfaði hún á upplýsingatæknisviði og þróunarsviði Landsbankans við að innleiða nýja ferla og tæknilausnir sem starfsmaður verkefnastofu. Hún er með B.Sc. og M.Sc. gráðu í iðnaðarverkfræði með áherslu á hermun og bestun frá Háskóla Íslands.