Sýn hf.: Afkoma fjórða ársfjórðungs og ársins 2024
Ársreikningur samstæðu Sýnar hf. fyrir árið 2024 var samþykktur á stjórnarfundi þann 20. febrúar 2025.
Helstu fjárhagstölur fjórða ársfjórðungs 2024
Rekstrartekjur samstæðunnar námu 5.731 m.kr. á fjórða ársfjórðungi 2024 samanborið við 5.874 m.kr. á sama tímabili 2023 og dragast saman um 2,4%.
Rekstrarkostnaður nam 1.771 m.kr á fjórða ársfjórðungi og dregst saman um 9,1% milli tímabila (4F 2023: 1.949 m.kr.) sem er í takt við markmið félagsins um aukna skilvirkni.
Rekstrarhagnaður (EBIT) nam 206 m.kr. á fjórða ársfjórðungi 2024 fyrir virðisrýrnun (4F 2023: 1.951 m.kr). Að teknu tilliti til stofnnetssölu (2.436 m.kr.) á 4F 2023 var rekstrartap (EBIT) 485 m.kr. á samanburðartímabili.
Tap eftir skatta nam 33 m.kr. á fjórða ársfjórðungi fyrir virðisrýrnun samanborið við 1.295 m.kr. hagnað á sama tímabili 2023. Leiðrétt fyrir hagnaði af stofnnetssölu á 4F 2023 var tap samanburðar tímabilsins 1.141 m.kr.
Helstu fjárhagstölur ársins 2024
Rekstrartekjur samstæðunnar árið 2024 námu 21.647 m.kr. samanborið við 21.746 m.kr. af áframhaldandi starfsemi á árinu 2023. Tekjur af kjarnastarfsemi jukust um 4,4%. Auglýsingasala jókst um tæplega 10% á árinu og skýrist einkum af hækkun í auglýsingatekjum sjónvarps sem hækkuðu um 40,8%. Tekjur í auglýsingasölu Vísis og í útvarpi jukust um 3,4%. Heilt yfir voru auglýsingatekjur á öllum miðlum þó undir væntingum á fjórða ársfjórðungi.
Kostnaðarverð seldra vara nam 14.357 m.kr. og eykst um 0,3% milli ára (2023: 14.311 m.kr.) Helsta skýring á hækkun eru kostnaðarverðshækkanir frá innviðabirgjum sem eru verðtryggðar.
Rekstrarkostnaður nam 6.780 m.kr. á árinu og eykst um 3,6% milli ára (2023: 6.518 m.kr.) Helsta skýringin eru almennar kjarasamningsbundnar hækkanir 3,25% og eignfærður launakostnaður lækkaði jafnframt um 131 m.kr. milli ára, vegna minni fjárfestinga og breytinga á eignfærslustefnu félagsins.
Rekstrarhagnaður (EBIT) samstæðunnar nam 739 m.kr. fyrir virðisrýrnun árið 2024 samanborið við 3.544 m.kr. í fyrra. Leiðrétt fyrir hagnaði af stofnnetssölu á 4F 2023 var EBIT 2023 1.108 m.kr.
Tap eftir skatta fyrir virðisrýrnun nam 357 m.kr. samanborið við 2.109 m.kr. hagnað í fyrra. Leiðrétt fyrir hagnaði af stofnnetssölu var tap samstæðunnar á árinu 2023 327 m.kr.
Heildar fjárfestingar á árinu námu 3.937 m.kr. (2023: 5.161 m.kr.) þar af eru fjárfestingar í varanlegum rekstrarfjármunum 714 m.kr., fjárfestingar í óefnislegum eignum 1.015 m.kr. og að lokum fjárfestingar í sýningarréttum 2.208 m.kr.
Handbært fé í árslok 2024 var 264 m.kr. samanborið við 624 m.kr. í lok árs í 2023.
Fyrirtækið sendi frá sér afkomuviðvörun þann 8. febrúar síðastliðinn og upplýsti að rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði og skatta (EBIT) yrði undir útgefnu spámarki ársins 2024, eða í kringum 700 m.kr. Ástæður fráviksins voru raktar í tilkynningu og var meðal annars skýrt með lækkun auglýsingatekna og sölu sjónvarpsáskrifta samanborið við áætlun. Auk þess var eignfærsla launakostnaðar nokkuð minni en búist var við og brunatjón hafði neikvæð áhrif á tekjumyndun og kostnað.
Stjórnendur hafa gripið til nauðsynlegra aðgerða til að auka gagnsæi og skilvirkni við sölu auglýsinga og sjónvarpsáskrifta, með hagsmuni viðskiptavina og fyrirtækisins að leiðarljósi.
Virðisrýrnunarpróf
Virðisrýrnunarpróf á viðskiptavild Sýnar leiddi í ljós virðisrýrnun að fjárhæð 1.161 millj. kr. Helsta ástæða virðisrýrnunarinnar er hækkun á vegnum fjármagnskostnaði (WACC), sem fór úr 11,8% árið 2023 í 12,8% í ár en sú hækkun stafar fyrst og fremst af hækkun áhættuálags sem fylgir rekstri fjarskipta- og fjölmiðlageirans. Einnig kemur til áhrifa að félagið hefur lækkað áður útgefnar horfur í rekstri á árinu 2025.
Niðurstaða virðisrýrnunarprófsins er í samræmi við góða reikningsskilavenju og endurspeglar þau markaðsskilyrði sem félagið býr við. Hún hefur þó ekki áhrif á rekstrarhæfi félagsins til lengri tíma, sjóðstreymi eða lánaskilmála. Félagið mun halda áfram að fylgjast náið með þróun mála og aðlaga rekstur sinn að breyttum aðstæðum.
Efnahagur 31. desember 2024
Eigið fé í lok tímabilsins nam 8.652 m.kr. og eiginfjárhlutfall var 27,9%.
Heildarskuldir félagsins voru 22.398 m.kr. í lok ársins. Vaxtaberandi langtímaskuldir námu 4.126 m.kr. en hreinar vaxtaberandi skuldir að viðbættum leiguskuldbindingum voru 18.373 m.kr. og veltufjárhlutfall 1,78.
Enski boltinn snýr heim í ágúst
Sýn hefur að nýju útsendingar frá Ensku úrvalsdeildinni í fótbolta um miðjan ágúst næstkomandi. Alls munu 380 leikir fara fram á tímabilinu sem stendur fram í maí 2026 en allir leikirnir verða sýndir á íþróttarásum Sýnar. Samningur Sýnar og Premier League nær til næstu þriggja keppnistímabila og gildir því fram á mitt ár 2028. Íþróttadeild Sýnar mun bjóða upp á spennandi nýjungar í umfjöllun og dagskrárgerð í tengslum við Enska boltann. Sýn hefur einnig sýnt alla leiki íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu í opinni dagskrá og mun gera áfram á nýju ári. Sýn er einnig rétthafi Meistaradeildar Evrópu, Evrópudeildarinnar og Sambandsdeildarinnar, líkt og fyrri ár.
Enski boltinn er eitt vinsælasta sjónvarpsefni landsins og hefur sögulega mikið aðdráttarafl. Fyrirkomulag áskrifta verður þannig að viðskiptavinir njóta hagræðis af því að kaupa farsíma og gagnaflutning samhliða áskriftum af sjónvarpsefni. Sýn mun bjóða alla viðskiptavini velkomna sem vilja sitja í Besta sætinu á íslenskum sjónvarps- og fjarskiptamarkaði.
Framtíðarhorfur
Umfangsmiklar hagræðingaaðgerðir í rekstri samstæðunnar og stefnumótun eru að baki og markmið um lækkun rekstrarkostnaðar hafa gengið eftir. Við gerum þó ráð fyrir hóflegri hækkun á rekstrarkostnaði til að styðja við innleiðingu stefnu og aukna markaðssókn sem mun skila Sýn virði til framtíðar. Lykilmarkmið stjórnenda er að halda áfram að auka arðsemi og bæta skilvirkni og samvinnu samstæðunnar.
Mat stjórnenda er að umtalsverð sóknarfæri séu til staðar fyrir innri vöxt á síðari hluta ársins, með tilkomu Enska boltans. Sögulega hefur verið mikil fylgni á milli þess og hvar viðskiptavinir kaupa vinsælt afþreyingarefni í sjónvarpi og fjarskiptaþjónustu.
Rekstrarspá stjórnenda gerir ráð fyrir að hagnaður fyrir fjármagnsliði og skatta (EBIT) verði á bilinu 800-1.200 m.kr. á árinu 2025. Sú spá gerir ekki ráð fyrir frekari lækkun kostnaðar við rekstur fjarskiptainnviða í gegnum víðtækara samstarf á vettvangi Sendafélagsins. Komi til slíks verður gert sérstaklega grein fyrir því. Jafnframt er gert ráð fyrir að viðskiptavinum sem kjósa að sitja í besta sætinu og njóta betri þjónustu, aukins ávinnings og samkeppnishæfra lausna í sjónvarpsáskriftum, farsímaþjónustu og heimatengingum fjölgi umtalsvert á árinu.
Áætlun ársins er framþung í kostnaði og afturþung í tekjum í ljósi þess að félagið stendur í innleiðingu á nýrri stefnu. Talsvert er um ytri kostnaðarverðshækkanir sem félagið hefur fengið á sig auk þess sem einskiptiskostnaður fylgir markaðssetningu og tækni tengt því að taka við Enska boltanum. Mikill munur verður því á fyrri og seinni árshelmingi 2025, þar sem félagið verður þá á góðri leið í átt að ásættanlegri arðsemi.
Herdís Dröfn Fjeldsted, forstjóri
„Afkoma ársins 2024 var undir okkar væntingum en mikilvægar og nauðsynlegar breytingar hafa verið gerðar á rekstri samstæðunnar. Við settum okkur metnaðarfull markmið að lækka rekstrarkostnað á ársgrundvelli og náðum við góðum árangri á því sviði. Kjarasamningsbundnar hækkanir og hækkanir birgja höfðu þó á móti neikvæð rekstrarleg áhrif. Áhrif verðbólgu mun hafa áhrif á rekstrarkostnað á þessu ári en við munum áfram leita allra leiða til að lágmarka yfirbyggingu og lækka rekstrarkostnað, m.a. með samstarfi við aðra aðila á markaði í rekstri fjarskiptainnviða. Skilvirkni og samvinna hefur verið aukin meðal allra rekstrareininga sem gerir okkur kleift að þjónusta viðskiptavini enn betur og auka arðsemina á komandi ári.
Innan Sýnar starfar öflugt fólk á öllum sviðum félagsins og með breiðri þátttöku þeirra mótuðum við sterka framtíðarsýn fyrir félagið. Þín sýn er okkar sýn, en hér leggjum við áherslu á að bæta alla upplifun viðskiptavina Sýnar sem eru ávallt í fyrsta sæti.
Ég hef fulla trú á að við náum að auka rekstrarhagnað af kjarnastarfsemi undanfarinna ára verulega. Við verðum þung í fjárfestingum á árinu vegna einskiptis kostnaðar við innleiðingu á nýrri stefnu, breyttri ásýnd félagsins og Enski boltinn er að koma heim. Stígandi verður í tekjum og arðsemi eftir því sem líður á árið og gert er ráð fyrir að síðari hluti ársins verði umtalsvert betri en sá fyrri. Enski boltinn, vinsælasta sjónvarpsefni landsins, er á leið aftur til okkar og leiknir verða 380 leikir á komandi leiktíð. Við skynjum mikla eftirvæntingu á meðal okkar viðskiptavina og starfsfólks fyrir komandi tímabili sem hefst þann 16. ágúst næstkomandi. Sögulega hefur afþreyingarefni í sjónvarpi, og þá sérstaklega Enski boltinn, haft mikil áhrif á hvar viðskiptavinir kjósa að kaupa farsímaþjónustu og gagnaflutninga. Við munum bjóða þá velkomna aftur sem og aðra viðskiptavini sem vilja sitja í besta sætinu með okkur og njóta þess að sjá allt vinsælasta íþróttaefni sem í boði er á einum stað.“
Fjárhagsdagatal 2025
- Afkoma 4F og ársuppgjör 2024 20. febrúar 2025
- Aðalfundur 2025 14. mars 2025
- Afkoma 1F 2025 7. maí 2025
- Afkoma 2F 2025 27. ágúst 2025
- Afkoma 3F 2025 5. nóvember 2025
- Afkoma 4F og ársuppgjör 2025 18. febrúar 2026
- Aðalfundir 2026 16. mars 2026
Kynningarfundur 21. febrúar 2025
- Opinn kynningarfundur vegna uppgjörsins verður haldinn föstudaginn 21. febrúar kl. 8:30 í húsnæði félagins að Suðurlandsbraut 8, Reykjavík. Fjárfestakynning verður birt í kauphöll áður en fundurinn hefst. Jafnframt verður hægt að fylgjast með fundinum í beinu streymi, en vefslóðin verður birt hér: https://syn.is/fjarfestatengsl/arshlutareikningar
- Tekið er á móti fyrirspurnum í gegnum netfangið fjarfestatengsl@syn.is.
- Nánari upplýsingar má nálgast á síðu fjárfestatengsla Sýnar á https://syn.is/fjarfestatengsl og í fréttakerfi Nasdaq Iceland.
Frekari upplýsingar veitir
Herdís Dröfn Fjeldsted, forstjóri, en einnig má senda fyrirspurnir á netfangið fjarfestatengsl@syn.is.
Viðhengi

Sýn hf. Fréttatilkynning 4F 2024
635400KNUVGJX3I1S518-2024-12-31-is
Sýn samstæðuársreikningur 2024