2. Desember 2024 Sýn hf.

Sýn hf.: Nýr framkvæmdastjóri ráðinn hjá Sýn hf.

Gengið hefur verið frá ráðningu Kristjönu Thors Brynjólfsdóttur í starf framkvæmdastjóra Miðla og efnisveitna.

Eins og fram kom í kauphallartilkynningu Sýnar frá 31. október 2024 hefur öll fjölmiðlastarfsemi Sýnar verið sameinuð og kallast hið nýja svið, Miðlar og efnisveitur. Sviðið er mikilvægur hlekkur í rekstri Sýnar en þar fer fram öll framleiðsla á dagskrárefni hvort sem er í sjónvarpi, útvarpi og hlaðvarpi. Rekstur fréttastofu heyrir einnig undir sviðið en unnið er eftir skýrri ritstjórnarstefnu og heyrir ritstjóri frétta beint undir forstjóra.

Kristjana hefur áratuga reynslu af fjölmiðlageiranum á Norðurlöndunum, þar sem hún hefur sinnt fjölbreyttum ábyrgðarstörfum. Hún hefur gegnt lykilhlutverkum hjá fyrirtækjum á borð við Warner Bros., Discovery og Viaplay Group. Þar hefur hún m.a. sérhæft sig í stefnumótun, efniskaupum og markaðssetningu, auk stjórnun stafrænna umbreytingarverkefna. Hún hefur öðlast dýrmæta innsýn í starfsemi fjölmiðlafyrirtækja, leitt fjölþjóðleg verkefni og unnið náið með haghöfum á sviði fjölmiðlunar. Nú síðast hefur Kristjana veitt sjónvarpsþróun Sýnar forstöðu.
  
Herdís Dröfn Fjeldsted, forstjóri:
„Við erum afar ánægð að fá Kristjönu Thors Brynjólfsdóttur til liðs við framkvæmdastjórn félagsins. Framkvæmdastjórnin er nú full mönnuð að teknu tilliti til breytinga á skipuriti Sýnar, sem tóku gildi 1. nóvember 2024. Kristjana hefur yfirgripsmikla alþjóðlega reynslu af fjölmiðlarekstri og stafrænni tækniþróun og mun styrkja yfirstjórn félagsins verulega. Við hlökkum til að vinna með Kristjönu að því að efla og þróa starfsemi fjölmiðlareksturs Sýnar og félagsins í heild enn frekar.“

Kristjana Thors Brynjólfsdóttir, framkvæmdastjóri Miðla og efnisveitna:
 „Það er gríðarlega spennandi að fá að taka þátt í þeirri vegferð sem Sýn er á. Styrkur fjölmiðla Sýnar er til vitnis um þá hæfileika, sköpunargáfu og ástríðu sem miðlarnir búa við. Þetta er mjög sterkur grunnur að byggja á þegar við tökumst saman á við að móta framtíð fjölmiðla í síbreytilegu landslagi.“