15. Nóvember 2024 Sýn hf.

Sýn hf.: Úthlutun kauprétta

Stjórn Sýnar hefur tekið ákvörðun um að veita forstjóra og framkvæmdastjórn samstæðunnar kauprétti að samtals 5.535.000 hlutum í félaginu, eða sem samsvarar um 2,24% af útgefnu hlutafé félagsins. Forstjóra var veittur kaupréttur að samtals 2.000.000 hlutum. Þá var framkvæmdastjórum veittur kaupréttur að samtals 3.535.000 hlutum eða 505.000 hlutum hver.

Kaupréttarsamningar vegna hinna úthlutuðu hluta voru undirritaðir í dag, 15.11.2024. Eru skilmálar þeirra í samræmi við samþykkt aðalfundar Sýnar, dags. 11.04.2024 á kaupréttaráætlun fyrir forstjóra, æðstu stjórnendur og lykilstarfsmenn samstæðunnar og starfskjarastefnu félagsins sem eru í viðhengi. Heildarfjöldi hluta sem heimilt er að veita kauprétt vegna á grundvelli kaupréttaráætlunarinnar er 10.000.000. Er markmið með veitingu kauprétta að tengja langtímahvatakerfi stjórnenda samstæðunnar við afkomu og langtímamarkmið félagsins og þar með langtímahagsmuni hluthafa þess.

Meginefni kaupréttarsamninganna er sem hér segir:

  • Veittur er kaupréttur á hlutabréfum á grunnverðinu kr. 30,46 fyrir hvern hlut, sem er vegið meðalverð hluta félagins síðustu tíu heilu viðskiptadaga á aðalmarkaði Nasdaq Iceland fyrir úthlutunardag. Grunnverð hækkar árlega um 7,5%, þ.e. frá gerð kaupréttarsamnings og fram að fyrsta mögulega nýtingardegi fyrir hvert nýtingartímabil.
  • Kauprétturinn ávinnst á þremur árum frá gerð kaupréttarsamninga.      
  • Nýtingartímabil kaupréttar hefst þegar ávinnslutíma kaupréttarsamnings er lokið, þ.e. þremur árum eftir gerð kaupréttarsamnings. Nýtingartímabil verða tvö, annars vegar í beinu framhaldi af fyrsta uppgjöri félagsins sem er birt eftir að nýtingartímbil hefst og hins vegar í beinu framhaldi af birtingu annars uppgjörs félagsins eftir að nýtingartímabil hefst. Í báðum tilvikum skulu starfsmenn hafa 15 daga til að tilkynna félaginu um fyrirhugaða nýtingu kaupréttar og skal félagið hafa 30 daga til að afhenda hlutabréfin frá því að frestur starfsmanna rennur út.
  • Forstjóra félagsins ber að eiga fram að starfslokum hjá samstæðunni hluti sem afhentir hafa verið í kjölfar nýtingar á kauprétti sem nema andvirði hreins hagnaðar af nýttum kaupréttum, þegar skattar hafa verið dregnir frá, og samsvara 9-földum mánaðarlaunum en aðrir stjórnendur sem samsvara 3-földum mánaðarlaunum, mælt í virði hlutafjáreignar í félaginu.
  • Almennt falla kaupréttir niður ef ráðningarsambandi kaupréttarhafa við félagið er slitið fyrir lok ávinnslutíma.
  • Komi til starfsloka kaupréttarhafa að loknum ávinnslutíma, vegna atvika sem kaupréttarhafa verður ekki um kennt, skal hann þó halda kauprétti sínum að hlutunum og verður þá heimilt að nýta allan áunninn kauprétt í kjölfar birtingar næsta uppgjörs félagsins eftir starfslok.
  • Komi til þess að breyting verði á yfirráðum í félaginu, sbr. 100. gr. laga nr. 108/2007 um yfirtökur, er kaupréttarhöfum heimilt að nýta allan kauprétt sinn í kjölfar birtingar næsta ársfjórðungsuppgjörs félagsins frá því yfirtökutilboð er gert eða tilboðsskylda myndast í félaginu.
  • Félaginu er óheimilt að veita lán eða ábyrgðir af nokkru tagi í tengslum við kaupréttarkerfið.

Í kjölfar úthlutunar kaupréttanna nemur heildarfjöldi útistandandi kauprétta 4.465.000, um 1,8% af útgefnu hlutafé félagsins, sem Sýn hefur veitt forstjóra, framkvæmdastjórn og lykilstjórnendum.

Áætlaður heildarkostnaður (gjaldfærsla) vegna kaupréttarsamninganna sem undirritaðir voru í dag , byggt á Black Scholes útreikningum, er að fjárhæð um 64.700.000.

Á aðalfundi Sýnar þann 11. apríl 2024 var stjórn jafnframt veitt heimild til að samþykkja kaupréttaráætlun byggða á 10. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt og gera kaupréttarsamninga við allt fastráðið starfsfólk samstæðunnar um kaup á hlutum í félaginu, sbr. viðhengi. Öllu fastráðnu starfsfólki samstæðunnar verður boðinn kaupréttur í félaginu í samræmi við þá samþykkt. Tilkynnt verður um niðurstöðu þeirrar úthlutunar þegar endanleg þátttaka liggur fyrir, fyrir opnun markaða mánudaginn 25. nóvember 2024.

Upplýsingar um kauprétti sem veittir voru forstjóra og framkvæmdastjórum eru í viðhengi.

Viðhengi