Sýn hf.: Afkoma Sýnar hf. á fyrstu níu mánuðum ársins 2024
Skýr fókus á kjarnastarfsemi og rekstrarbata
Árshlutareikningur samstæðu Sýnar hf. fyrir fyrstu níu mánuði ársins 2024 var samþykktur á stjórnarfundi þann 13. nóvember 2024.
Rekstrarhagnaður (EBIT) á þriðja ársfjórðungi (3F) var 363 m.kr., samanborið við 590 m.kr. á fyrra ári. Hagnaður eftir skatta á 3F nam 17 m.kr. samanborið við 321 m.kr. hagnað á sama tímabili árið 2023. Skýrist þessi munur helst af minni tekjum af IoT þjónustu, hærra kostnaðarverði og hærri afskriftum sýningarrétta sem voru lægri á sama tíma í fyrra vegna endursamninga við birgja.
Þann 1.október var undirritaður kaupsamningur við Hexatronic um hluta af starfsemi Endor ehf., dótturfyrirtæki Sýnar hf. Viðmiðunardagur viðskiptanna var 20. september en hluti kaupverðsins var greiddur í byrjun október.
Skipurit Sýnar tók breytingum 1. nóvember. Tveir nýir stjórnendur taka sæti í framkvæmdastjórn en unnið er að ráðningu í stöðu framkvæmdastjóra Miðla og efnisveitna. Breytingarnar koma í kjölfar stefnumótunar félagsins og er ætlað að efla samvinnu, auka skilvirkni og styðja við velgengni og vöxt félagsins til framtíðar.
Árangur félagsins á þriðja ársfjórðungi ársins er í samræmi við forsendur afkomuspár fyrir árið 2024 sem félagið birti 2. júlí síðastliðinn og gerir ráð fyrir að rekstrarhagnaður (EBIT), án nokkurra leiðréttinga vegna einskiptisliða, verði á bilinu 900-1.100 m.kr.
Félagið er á réttri leið með að ná skilvirknimarkmiðum sínum um að skila 6-800 m.kr. í rekstrarbata á ársgrundvelli á síðari hluta ársins 2024. Rekstrarbatinn ætti að skila félaginu 1.500-1.700 m.kr. í rekstrarhagnað (EBIT) á árinu 2025 án tillits til annara verkefna sem koma inn á því ári. Nánar verður farið yfir horfur í rekstri félagsins á markaðsdegi Sýnar sem haldinn verður fimmtudaginn 14.nóvember kl.12:00.
Herdís Dröfn Fjeldsted, forstjóri:
„Árangur félagsins á fyrstu 9 mánuðum ársins er í samræmi við útgefna afkomuspá fyrir árið 2024 sem við birtum 2. júlí síðastliðinn en afkomuspá fyrir árið 2024 gerði ráð fyrir að rekstrarhagnaður (EBIT) yrði á bilinu 900-1.100 m.kr. án leiðréttinga vegna einskiptisliða. Við reiknum með að ná þessu markmiði en að niðurstaðan verði nær neðri mörkum sem gefin voru upp í afkomuspánni. Ástæður þess eru einna helst ákvarðanir sem teknar voru á fjórðungnum hvað varðar minnkandi eignfærslu launa og upphreinsun á eldri farsímalager í eigu félagsins. Félagið er einnig á réttri leið með að ná markmiðum sínum í skilvirkni en markmiðið er að skila 6-800 m.kr. í rekstrarbata á ársgrundvelli á síðari hluta ársins 2024 sem ætti að skila félaginu 1.500-1.700 m.kr. í rekstrarhagnað (EBIT) á árinu 2025 án annara verkefna sem koma inn á því ári. Við erum fullviss um að ná því markmiði einnig.
Eins og áður hefur komið fram hefur rekstrarniðurstaða félagsins verið lituð af of mikilli yfirbyggingu þar sem sameiningar fyrri ára hafa ekki verið að fullu innleiddar inn í rekstur félagsins. Nýir stjórnendur komu inn á þessu ári og höfum við notað tímann vel í að kynnast félaginu en ekki síður tekið metnaðarfullar ákvarðanir til framtíðar.
Gengið var frá sölu á hluta af starfsemi Endor í byrjun október og eftirstandandi starfsemi Endor verður nú sameinuð inn í Sýn hf. Einnig var hlutur félagsins í Parka Lausnum seldur á tímabilinu. Þetta eru liðir í stefnu félagsins þar sem lögð er áhersla á að styrkja kjarnastarfsemi til framtíðar og skerpa á stefnu.
Í byrjun nóvember tilkynntum við um breytingu á skipuriti félagsins þar sem tveir nýir stjórnendur taka sæti í framkvæmdastjórn, þeir Guðmundur H. Björnsson sem mun leiða nýtt svið Upplifunar viðskiptavina og Gunnar Sigurjónsson sem mun taka við Upplýsingatæknisviðinu af Gunnari Guðjónssyni. Gunnar Guðjónsson hefur stigið inn í nýtt hlutverk sem framkvæmdastjóri Sölu og þjónustu. Auk þess hefur Sigurbjörn Eiríksson tekið sæti í framkvæmdastjórn en hann hefur veitt Innviðum Sýnar forstöðu síðustu ár. Unnið er að ráðningu framkvæmdastjóra Miðla og efnisveitna og stefnt að því að ljúka því ferli í nóvember. Skipuritið endurspeglar áherslur félagsins í þeim verkefnum sem framundan eru og mun hjálpa okkur að ná enn betri árangri í þjónustu við viðskiptavini og styrkja rekstrargrundvöll félagsins til framtíðar.
Ég er þess fullviss um að ný áhersla okkar og átak í djúpri samþættingu og einföldun innan Sýnar muni leggja grunninn að sjálfbærum langtíma hagnaði og vexti. Við höfum unnið markvisst að mótun nýrrar stefnu Sýnar síðustu mánuði þar sem helstu drifkraftar eru skilvirkni, vöxtur og samvinna og lítum björtum augum til framtíðar.
Við munum fara yfir fyrsta áfangann í umbreytingarferlinu sem felst í að leggja fram framtíðarsýn sem sameinað fyrirtæki á Markaðsdegi Sýnar fimmtudaginn 14. nóvember."
Viðhengi