Við notum vefkökur til að bæta upplifun þína á síðunni. Með því að halda áfram að vafra um síðuna samþykkir þú skilmála okkar um notkun á vefkökum, að öðrum kosti getur þú kynnt þér hvernig má stýra notkun þeirra.

29. Ágúst 2023 Sýn hf.

Sýn hf.: Rekstrarhagnaður Sýnar nam 1.002 m.kr. á fyrri helmingi árs

Árshlutareikningur samstæðu Sýnar hf. fyrir fyrstu sex mánuði ársins 2023 var samþykktur á stjórnarfundi þann 29. ágúst 2023.

Rekstrarhagnaður (EBIT) Sýnar hf. nam 1.002 m.kr. á fyrstu sex mánuðum ársins 2023 og eykst um 39% á milli ára. Rekstrarhagnaður á öðrum ársfjórðungi var 574 m.kr., samanborið við 322 m.kr. á fyrra ári.

Hagnaður eftir skatta á fyrstu sex mánuðum ársins nam 483 m.kr. samanborið við 273 m.kr. á sama tímabili árið 2022.

Vænta má niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins vegna kaupa Ljósleiðarans á stofnneti Sýnar ekki síðar en 28. september. Umsamið kaupverð er kr. 3.000 m.kr.

Sölutorgið Bland.is var nýverið keypt. Í október má búast við niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins vegna kaupa á öllu hlutafé Eignarhaldsfélagsins Njálu, móðurfélagi Já hf., sem rekur vefsíðuna ja.is. Með kaupunum á Já og Bland verður til ný tekjustoð í rekstri Sýnar,  verslun og vöruleit, auk þess sem auglýsingaplássum á vefmiðlum Sýnar fjölgar til muna.

Afkomuspá vegna ársins 2023 er óbreytt, EBIT 2.200 m.kr. til 2.500 m.kr. án einskiptishagnaðar vegna sölu stofnnets.

Yngvi Halldórsson, forstjóri:

„Rekstrarhagnaður heldur áfram að vaxa í takt við áætlanir. Við sjáum líka ágætan takt í tekjum í kjarnastarfsemi þótt beinn samanburður sé erfiður við fyrra ár vegna óreglulegra tekna. Einkar ánægjulegt er að sjá sterkan tekjuvöxt og framlegðaraukningu í auglýsingatekjum og reiki, auk þess að áfram er góður gangur í fjarskiptum fyrirtækja.

Við höfum undanfarið gert mjög góða samninga sem munu styrkja félagið þegar fram líða stundir. Í fyrirtækjakaupum þá keyptum við Já en sá samruni er í meðhöndlun hjá SKE. Einnig keyptum við sölutorgið Bland.is sem við höfum nú þegar fengið afhent. Við sjáum mikil tækifæri í auglýsingum og annarri þjónustu á vefmiðlum og eru þessi kaup liður í því.

Við gerðum tímamótasamning við Viaplay og með þeim samningi er Vodafone með einkarétt á sölu á Viaplay vörunum í vöndli við aðrar vörur. Með þessu erum við meðal annars að einfalda líf sport áhugamanna með lækkun á heildarkostnaði heimila.

Nú í ágúst setti Vodafone í loftið fjölbreytta fjarskipta- og afþreyingarpakka sem henta öllum gerðum af heimilum. Viðtökur viðskiptavina hafa verið mjög góðar og er stefnan sett á aukningu í markaðshlutdeild í kjarnastarfsemi á næstu mánuðum.“

Viðhengi