Við notum vefkökur til að bæta upplifun þína á síðunni. Með því að halda áfram að vafra um síðuna samþykkir þú skilmála okkar um notkun á vefkökum, að öðrum kosti getur þú kynnt þér hvernig má stýra notkun þeirra.

10. Maí 2023 Sýn hf.

Sýn hf.: Áframhaldandi rekstrarbati í krefjandi umhverfi

Árshlutareikningur samstæðu Sýnar hf. fyrir fyrsta ársfjórðung ársins 2023 var samþykktur á stjórnarfundi þann 10. maí 2023.

  • Rekstrarhagnaður (EBIT) Sýnar hf. nam 428 m.kr. á fyrsta ársfjórðungi 2023 og eykst um 6,7% á milli ára.
  • Ágætur tekjuvöxtur á milli ára þrátt fyrir sterkan samanburðarfjórðung árið 2022.
  • Hagnaður eftir skatta nam kr. 213 m.kr. samanborið við 207 m.kr. á sama tímabili árið 2022.
  • Afkomuspá fyrir árið er óbreytt þar sem gert er ráð fyrir að rekstrarhagnaður (EBIT) nemi 2.200 til 2.500 m.kr.
  • Vænta má niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins vegna kaupa Ljósleiðarans á stofnneti Sýnar í sumar. Umsamið kaupverð er kr. 3.000 m.kr.
  • Sýn hf. hefur náð samkomulagi um kaup á öllu hlutafé Eignarhaldsfélagsins Njálu, móðurfélagi Já hf., sem rekur vefsíðuna ja.is og eru þau viðskipti til meðhöndlunar hjá Samkeppniseftirlitinu.
  • Á fjórðungnum var ákveðið að skila samtals 1.211 m.kr. til hluthafa félagsins.

Yngvi Halldórsson, forstjóri:

„Rekstrarhagnaður (EBIT) hækkar um 7% á milli ára þrátt fyrir krefjandi samkeppnisaðstæður á öllum okkar mörkuðum. Við sjáum heilbrigðan tekjuvöxt en samanburðarfjórðungurinn var mjög sterkur vegna óreglulegra farsímatekna á síðasta ári. Áhersla okkar á aðhald í rekstri sem birtist m.a. í hagræðingaraðgerðum sem ráðist var í síðastliðið haust hafa gert okkur kleift að halda rekstrarkostnaði stöðugum þrátt fyrir margvíslegar áskoranir í umhverfinu. Þá náðum við góðum árangri í samningum við lykilbirgja sem hefur jákvæð áhrif á rekstur okkar á árinu. Niðurstaða fjórðungsins er því samkvæmt áætlun.

Við höldum áfram ótrauð á þeirri umbreytingavegferð sem mörkuð hefur verið. Mjög góður og stöðugur árangur er á fyrirtækjamarkaði og nýjar áherslur í markaðsmálum eru farnar að líta dagsins ljós. Við væntum mikils af markaðssókn félagsins. Þar er stóra verkefnið að auka markaðshlutdeild Vodafone á fjarskiptamarkaði heimila.

Við erum með tvö mál í meðferð hjá Samkeppniseftirlitinu. Vænta má niðurstöðu vegna sölu á stofnneti okkar til Ljósleiðarans og Já í sumar. Já er spennandi viðbót í starfsemi og þjónustuframboði Sýnar. Miklir möguleikar fylgja öflugum lausnum og starfsfólki Já. Ekki síst nú þegar tækifæri eru til að nýta sér breytingar á auglýsingamarkaði.

Afkomuspá ársins er óbreytt en áfram eru mikil tækifæri í öllum rekstrareiningum Sýnar og munum við kynna ýmsar nýjungar í vöruframboði og lausnum á næstu mánuðum.“

Viðhengi