Við notum vefkökur til að bæta upplifun þína á síðunni. Með því að halda áfram að vafra um síðuna samþykkir þú skilmála okkar um notkun á vefkökum, að öðrum kosti getur þú kynnt þér hvernig má stýra notkun þeirra.

30. Ágúst 2022 Sýn hf.

Sýn hf.: Mesti rekstrarhagnaður í sögu fyrirtækisins

Árshlutareikningur samstæðu Sýnar hf. fyrir fyrstu sex mánuði ársins 2022 var samþykktur á stjórnarfundi þann 30. ágúst 2022.  

Helstu niðurstöður:

  • Tekjur á öðrum ársfjórðungi (2F) 2022 námu 6.009 m.kr. en tekjur aukast um 720 m.kr. frá sama tíma árið 2021. Tekjur á fyrstu sex mánuðum ársins voru 11.691 m.kr. sem er 13,6% hærra en á sama tíma 2021.
  • EBITDA nam 1.607 m.kr. á 2F 2022 í samanburði við 1.488 m.kr. á sama tímabili í fyrra. EBITDA hlutfallið er 26,7% á 2F 2022 samanborið við 28,1% á 2F 2021. EBITDA á fyrstu sex mánuðum ársins var 3.317 m.kr. sem er 15,3% hækkun frá síðasta ári.
  • Hagnaður á 2F 2022 nam 66 m.kr. samanborið við 117 m.kr. tap á sama tímabili í fyrra. Hagnaður á fyrri árshelmingi ársins nam 273 m.kr. samanborið við 348 m.kr. tap á sama tímabili árið 2021. Inni í tapi fyrri árshelmings árið 2021 er sölutap að fjárhæð 179 m.kr. vegna sölu á færeyska hlutdeildarfélaginu Hey.
  • Handbært fé frá rekstri á fjórðungnum nam 1.580 m.kr. samanborið við 1.431 m.kr. á sama tímabili árið áður, sem er hækkun um 10,4%. Handbært fé frá rekstri á fyrri árshelmingi nam 2.688 m.kr. samanborið við 1.975 m.kr. á sama tímabili árið áður, sem er hækkun um 36,1%.
  • Heildarfjárfestingar á fyrstu sex mánuðum ársins 2022 námu 1.830 m.kr. þar af eru fjárfestingar í varanlegum rekstrarfjármunum og óefnislegum eignum (án sýningarrétta) 740 m.kr. og fjárfesting í sýningarréttum 1.086 m.kr.
  • Fjármögnunarhreyfingar á fyrri árshelmingi voru neikvæðar um 2.809 m.kr. á móti 1.748 m.kr. á sama tímabili árið 2021. Innifalið í fjármögnunarhreyfingum 2022 eru kaup á eigin bréfum að fjárhæð 1.860 m.kr.
  • Í ársbyrjun 2022 ákvað stjórn að setja í gang endurkaupaáætlun í þeim tilgangi að lækka útgefið hlutafé félagsins. Endurkaupaáætlunin hófst með öfugu útboði þann 7. janúar sem lauk 9. janúar. Til viðbótar voru sett í gang regluleg endurkaup sem stóðu yfir frá 13. janúar til 3. mars. Félagið keypti í heild 28.064.512 hluti eða 9,47% af útgefnu hlutafé fyrir 1.860 m.kr.
  • Eiginfjárhlutfall félagsins var 27,3% í lok fyrri árshelmings ársins 2022.
  • Á aðalfundi félagsins þann 18. mars var samþykkt tillaga stjórnar um að lækka hlutafé í samræmi við fjölda eigin hluta. Lækkunin var framkvæmd þann 12. apríl og eru útgefnir hlutir í félaginu 268.376.962 eftir lækkunina.

Heiðar Guðjónsson, forstjóri:

„Rekstrarhagnaður eykst um 740 milljónir á milli ára og við sýnum mesta rekstrarhagnað í sögu fyrirtækisins. Við náum að halda aftur af kostnaði en aukum tekjur um 14%.  Ég hef fulla trú á að við höldum áfram að bæta ofan á tekjurnar en kostnaðurinn haldist hóflegur og því erum við á góðri leið með að ná því að hafa um 100 milljón króna hagnað á mánuði af reglulegri starfsemi sem ganginn í fyrirtækinu.

Við höfum fjárfest mikið í innri kerfum á síðustu þremur árum og það er langstærsta fjárfesting félagsins á tímanum. Hún fer núna að bera ávöxt með nýjungum í vöruframboði sem munu auka tekjur okkar og hlutdeild á markaði. Grunnurinn er því afar traustur.

Ritað var undir samning um samstarf við uppbyggingu á 5G sendum við Nova í júní sem hefur leitt af sér stærsta landsdekkandi kerfið. Eins styrkir það okkur enn frekar í því forskoti sem við höfum í hlutanetinu (IoT) með yfir milljón kort útistandandi en tekjuvöxtur framtíðar mun liggja að stóru leyti þar á farsímamarkaði.

Á fjölmiðlamarkaði sjáum við umtalsverða aukningu í tekjum af áskriftum og auglýsingum.  Allir miðlar eru að vaxa og skila jákvæðri afkomu.

Þetta er síðasta afkomubirting sem ég tek þátt í og er ég einstaklega stoltur af því verki sem við höfum skilað á starfstíma mínum. Við höfum breytt algerlega stefnu fyrirtækisins, endurnýjað innri upplýsingakerfi, snúið við rekstri, endurfjármagnað félagið og gert allt þetta í miðjum heimsfaraldri. Framtíðin er svo sannarlega björt hjá Sýn hf.“

Viðhengi