Samfélag
Sýn er efnahagslega og samfélagslega mikilvægt fyrirtæki sem veitir víðtæka þjónustu sem skiptir máli fyrir innviði samfélagsins, samskipti fólks og rekstur fyrirtækja og stofnana.
Félagið fylgir í hvívetna lögum og reglum og leggur sig fram um að vera fyrirmynd í samfélagsmálum. Það einsetur sér að sýna starfsfólki sínu, birgjum og viðskiptavinum virðingu í öllum samskiptum. Fréttastofa Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar er á vakt allan sólarhringinn og tryggir að landsmenn fái áreiðanlegar fréttir þegar þær skipta mestu máli og tengjast jafnvel öryggi þeirra. Sýn framleiðir þætti sem hafa áhrif á umræðu og vitundarvakningu almennings er varðar ýmis málefni.
Sýn styrkir fjölbreytt góðgerðasamtök, íþróttastarf og menningu með ýmsum hætti. Stuðningur Sýnar er ýmist í formi beins fjárhagsstuðnings, afslátta fyrir veitta þjónustu, sjálfboðastarfs, safnana eða gjafa. Ákvarðanir um stuðning, samstarf og úthlutun styrkja byggja á sjálfbærni – því við viljum hafa raunveruleg og jákvæð áhrif á samfélagið sem við erum hluti af.
Fréttir fyrir fólkið í landinu
Fréttastofa Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar gegnir mikilvægu hlutverki við að upplýsa og fræða almenning um málefni líðandi stundar. Lögð er rík áhersla á að vera fyrst með fréttirnar en á sama tíma vera með vandaðan fréttaflutning, greina rétt og skýrt frá. Á árinu tókum við stórt skref í átt að aðgengilegri fréttaflutningi með því að opna kvöldfréttir Stöðvar 2 fyrir öllum landsmönnum. Með því vildum við tryggja að fólk hefði greiðan aðgang að fjölbreyttum og áreiðanlegum fréttum frá einni sterkustu fréttastofu landsins. Fréttastofan leggur sig einnig fram um að vekja athygli á málum sem eiga erindi við almenning og dýpka fréttaumfjöllun í gegnum ýmsa fréttatengda þætti á borð við Pallborðið og Kompás. Fréttastofan nýtur trausts almennings sem sjá má á hversu margir hlusta, horfa eða lesa fréttir okkar. Yfir 80% landsmanna lesa Vísi vikulega, 22% hlusta á hádegisfréttir Bylgjunnar og yfir 40% horfa á kvöldfréttir í hverri viku.
Dagskrárgerð sem speglar þjóðina
Hluti af samfélagslegu hlutverki Sýnar er að framleiða og miðla efni sem á erindi við þjóðina hverju sinni í takt við síbreytilegan tíðaranda. Á árinu 2024 framleiddum við gríðarlegt magn dagskrárefnis, í sjónvarpi, útvarpi og á vefmiðlum, sem var ætlað að skemmta þjóðinni og endurspegla það sem var að gerast í íslensku samfélagi.
Á útvarpsstöðvum Sýnar eru beinar útsendingar alla daga ársins og við leggjum sem fyrr mikla áherslu á að vera í stöðugum samskiptum við hlustendur, meðal annars með því að opna fyrir símann í beinni og taka þannig púlsinn á þjóðinni.
Á Stöð 2 og Stöð 2 Sport höfum við lagt áherslu á framleiðslu á hágæða íslensku efni, bæði til að fræða áhorfendur og veita framúrskarandi skemmtun heim í stofu. Við erum stolt af því að framleiða efni sem vekur umræðu, tengir fólk saman og veitir innsýn í íslenskt samfélag.
Tæknin sem tengir samfélagið
Við tökum hlutverki okkar sem tæknifyrirtæki alvarlega og trúum að tæknin geti einfaldað líf fólks og stutt við öflugt atvinnuleg. Á hverjum degi hjálpum við yfir 100.000 manns að tengjast og mörg af stærstu fyrirtækjum landsins treysta okkur fyrir sínu sambandi. Það er okkar markmið að nýta tæknina til góðs - bæði fyrir einstaklinga og fyrirtæki í landinu
Uppbygging 5G gekk vel á árinu en í lok árs voru 180 5G sendar tengdir um land allt. Við höfum einnig styrkt símaþjónustu með innleiðingu tækni eins og VoLTE, sem tryggir betri og stöðugri símtöl. Við erum stolt af því að nýta tæknina til að veita landsmönnum besta mögulega sambandið hverju sinni.
Á árinu 2024 urðu miklar jarðhræringar sem kröfðust þess að við aðstoðuðum viðbragðsaðila við að tryggja öruggt samband á þeim svæðum en það er – ekki aðeins mikilvægt fyrir almenning, heldur einnig fyrir vísindafólk og björgunaraðila.
Í lok árs var skrifað undir áframhaldandi samstarf við Slysavarnafélagið Landsbjörg. Samstarfið hefur verið gjöfult og gott og leggjum við höfuðáherslu á aðveita Landsbjörgu fyrsta flokks fjarskiptaþjónustu hvar og hvenær sem er á landinu, enda liggur oft mikið við.
Nýtum innviðina okkar til góðs
Að gefa til baka skiptir okkur máli. Á þessu ári vorum við svo lánsöm að geta stutt við söfnunarátak Grensásdeildar Landsspítalans þar sem tókst að safna 147 milljónum króna. Sýn sá söfnuninni fyrir öruggri fjarskiptaþjónustu við áheitasöfnunina sem fór fram í gegnum síma og smáskilaboð. Traust fjarskiptasamband er lykilþáttur í svona söfnun þar sem álag á kerfi verður mikið á stuttum tíma. Sýn tryggði að tæknin virkaði sem skildi ásamt því að umbreyta þjónustuveri Sýnar þar sem sjálfboðaliðar svöruðu í símann og tóku á móti framlögum.
Sýn bjó einnig til pláss með þátttöku í söfnunar- og skemmtiþætti UNICEF sem bar heitið Búðu til pláss en markmið þáttarins var að fjölga Heimsforeldrum og bæta þannig líf milljóna barna í neyð. Líkt og undanfarin ár sýndum við stuðning í verki – bæði með öruggum fjarskiptum í gegnum símaver Vodafone og þátttöku í útsendingu og framleiðslu þáttarins í gegnum Stöð 2. Söfnunin skilaði frábærum árangri þar sem 2.100 nýir Heimsforeldrar gengu til liðs við UNICEF. Starfsfólk Sýnar, ásamt fjölda sjálfboðaliða, tók á móti símtölum og lagði sitt af mörkum til þessa mikilvæga verkefnis.