Við notum vefkökur til að bæta upplifun þína á síðunni. Með því að halda áfram að vafra um síðuna samþykkir þú skilmála okkar um notkun á vefkökum, að öðrum kosti getur þú kynnt þér hvernig má stýra notkun þeirra.

Guðfinnur Sigurvinsson

Samskiptastjóri

26. febrúar 2018

Vodafone stolt af umhverfisvænu hátæknigagnaveri í Reykjavík

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, Stefán Sigurðsson, forstjóri Vodafone, Þorsteinn G. Gunnarsson, forstjóri Opinna kerfa, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Friðrik Þór Snorrason, forstjóri Reiknistofu bankanna og Sævar Ólafsson, framkvæmdastjóri Korputorgs

Fyrsta gagnaver Reykjavíkur verður reist á Korputorgi á árinu en samningar þess efnis voru undirritaðir á Korputorgi í gær. Um er að ræða umhverfisvænt hátæknigagnaver í eigu Opinna kerfa, Vodafone, Reiknistofu bankanna og Korputorgs ehf. Reiknað er með að gagnaverið verði eitt það tæknilegasta og öflugasta á landinu. Um að ræða allt að 5 þúsund fermetrar nýbyggingu sem byggð verður í áföngum og mun fyrsti áfangi kosta hátt í milljarð króna. Framkvæmdir hefjast fljótlega og gera áætlanir ráð fyrir því að fyrsti áfangi verði tilbúin snemma árs 2019. Gagnaverið verður aðalvélarsalur Reiknistofu bankanna og mun það sinna kröfuhörðum viðskiptavinum félagsins sem leggja ríka áherslu á rekstrar- og gagnaöryggi.

Gagnaverið mun uppfylla svokallaðan Tier III staðal, sem þýðir að í allri þjónustukeðju gagnaversins verður nægur varabúnaður til staðar til að tryggja 100% þjónustuöryggi. Staðsetning gagnaversins er mikilvæg en þar koma saman margir þættir sem skipta miklu máli. Afhendingaröryggi raforku er mikið og þegar liggja gagnastofnbrautir, sem eru afkastamiklir ljósleiðarar, um Korputorg. Þá er leyfi fyrir gagnaver til staðar á lóðinni en mikil sóknarfæri eru í gagnaversiðnaði sem er sá iðnaður í heiminum sem vex einna örast. Þá má geta að nýlega var Ísland valið öruggasta land í heimi fyrir gagnaver af alþjóðalega stórfyrirtækinu Cushman & Wakefield.

„Vodafone er stolt að því að vera þátttakandi í uppbyggingu á umhverfisvænu gagnaveri sem nýtir endurnýjanlega orku í hratt vaxandi geira. Við höfum fundið fyrir aukinni þörf fyrir gagnaver miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu sem uppfylla ströngustu kröfur um öryggi. Vodafone hefur mikla trú á Íslandi sem framtíðarstaðsetningu fyrir vinnslu og geymslu gagna fyrir alþjóðlegan markað enda er það óvíða jafn hagkvæmt en á sama tíma umhverfisvænt að reka slíkan iðnað en á Íslandi,“ segir Stefán Sigurðsson forstjóri Vodafone á Íslandi.