Við notum vefkökur til að bæta upplifun þína á síðunni. Með því að halda áfram að vafra um síðuna samþykkir þú skilmála okkar um notkun á vefkökum, að öðrum kosti getur þú kynnt þér hvernig má stýra notkun þeirra.

Guðfinnur Sigurvinsson

samskiptastjóri

20. maí 2019

Vodafone hlaut Áttavita Landsbjargar

Áttavitinn afhentur

Á landsþingi Slysavarnafélagsins Landsbjargar sem fram fór um helgina hlaut Vodafone, eitt vörumerkja Sýnar, Áttavitann svokallaða. Áttavitinn er viðurkenning fyrir náið samstarf og mikilvægan stuðning við starf Slysavarnafélagsins Landsbjargar í áranna rás en slíkur stuðningur er Landsbjörg ómetanlegur og eflir allt þeirra starf. Auk Vodafone fengu Landsbankinn, Landhelgisgæslan og rithöfundarnir Óttar Sveinsson og Steinar J. Lúðvíksson Áttavitann að þessu sinni. Um það bil 600 sjálfboðaliðar frá slysavarnadeildum og björgunarsveitum af landinu öllu sóttu landsþingið.

„Við tökum auðmjúk við þessari viðurkenningu. Vodafone hefur í 11 ár verið einn af aðalsamstarfsaðilum Landsbjargar og erum við stolt af því að leggja okkar á vogarskálar leitar, björgunar og slysavarna í landinu. Við eigum einnig í margháttuðu samstarfi á sviði fjarskiptamála og leggjum mikið upp úr því að vinna með Landsbjörg að uppbyggingu farsímadreifikerfis okkar enda mikilvægt fyrir starfsemi félagsins að þau séu vel tengd,“ segir Bára Mjöll Þórðardóttir markaðsstjóri Sýnar hf. sem tók við viðurkenningunni fyrir hönd fyrirtækisins.