Við notum vefkökur til að bæta upplifun þína á síðunni. Með því að halda áfram að vafra um síðuna samþykkir þú skilmála okkar um notkun á vefkökum, að öðrum kosti getur þú kynnt þér hvernig má stýra notkun þeirra.

Helga Björg Antonsdóttir

Vörumerkjastjóri Vodafone

22. júní 2021

Vodafone er stoltur bakhjarl UN Women á Íslandi

Nú á dögunum endurnýjuðu Vodafone og UN Women á Íslandi samstarfssamning sinn.

Vodafone hefur verið helsti bakhjarl FO-herferða UN Women frá upphafi verkefnisins og á síðustu árum hafa safnast 59 milljónir króna til verkefna UN Women sem miða að því að uppræta ofbeldi gegn konum og stúlkum í fátækari ríkjum heims. Vodafone hefur staðið straum að framleiðslukostnaði söluvarnings fyrir FO-herferðir ásamt því að styðja við markaðsstarf verkefnisins. Það hefur gert það að verkum að allur ágóði af sölu FO-varnings hefur geta runnið beint til mikilvægra verkefna UN Women.

„Við hjá UN Women á Íslandi erum afar þakklát Vodafone og fögnum undirritun samstarfssamnings við Vodafone nú sjötta árið í röð. Ný FO afurð til styrktar UN Women verður kynnt í október og er bakhjarlsstuðningur Vodafone ómetanlegur. Í fyrra seldist FO bolurinn 2020 upp á innan við tveimur sólarhringum svo það verður spennandi að sjá hverjar viðtökurnar verða í ár. Kynbundið ofbeldi hefur aukist í kjölfar COVID-19 hér á landi sem og um allan heim. En stuðningur Vodafone við herferðina gerir UN Women á Íslandi kleift að senda allan ágóða sölunnar til verkefna UN Women þar sem þörfin er mest, segir Stella Samúelsdóttir, framkvæmdastýra UN Women á Íslandi.

„Við höfum átt frábært samstarf við UN Women undanfarin ár og erum spennt að leggja þessu einstaka verkefni lið áfram. Sala á FO- bolnum árið 2020 var ótrúleg, en bolurinn seldist upp á rúmum 48 klukkustundum. Við erum spennt að hefja sölu á nýjum varning með haustinu sem við erum viss um að muni slá í gegn og vonumst til að saman náum við að safna enn hærri upphæð, í þágu verkefna UN Women,“ segir Helga Björg Antonsdóttir, vörumerkjastjóri Vodafone.

„UN Women á Íslandi þakkar Vodafone sérstaklega fyrir að standa straum af kostnaði við framleiðslu FO söluvarningsins og fagnar þeim flottu skrefum sem Vodafone stígur í þessu samstarfi hvað varðar samfélagslega ábyrgð,“ segir Stella að lokum.

Fylgist með í haust þegar UN Women munu kynna nýjan FO varning og munu viðskiptavinir Vodafone fá fyrstir upplýsingar um forsölu til að geta tryggt sér eintak á undan öðrum.