Við notum vefkökur til að bæta upplifun þína á síðunni. Með því að halda áfram að vafra um síðuna samþykkir þú skilmála okkar um notkun á vefkökum, að öðrum kosti getur þú kynnt þér hvernig má stýra notkun þeirra.

Sif Sturludóttir

Forstöðumaður

1. mars 2020

Staðráðin í að vernda umhverfið

Sif Sturludóttir er forstöðumaður hjá Vodafone. Hér með tvo af vistvænum rafbílum Vodafone í bakgrunni.

Vodafone hefur sett sér skýr markmið í umhverfis- og loftslagsmálum. Þau eru til þess fallin að draga úr mengun og hafa jákvæð áhrif á vistspor fyrirtækisins og starfsfólkið.

Við erum staðráðin í því að vernda umhverfið en við skrifuðum undir loftslagsyfirlýsingu FESTU og Reykjavíkurborgar um markmið í loftslagsmálum og höfum einsett okkur að efla vistvænar samgöngur, draga úr myndun úrgangs og stuðla að betri orkunýtingu,“ segir Sif Sturludóttir, forstöðumaður hjá Vodafone.

„Við skiptum út stórum hluta bílaflotans um mitt ár 2019. Það kom aldrei neitt annað til greina en að meirihluti bílanna yrði umhverfisvænn og stór hluti þeirra er eingöngu knúinn rafmagni. Rafbílar eru þægilegir og auðveldir í rekstri, þeir menga lítið við notkun og hafa sannað sig við íslenskar aðstæður undanfarin ár. Rafbílar eru sífellt að verða vinsælli, enda hagkvæmur og vistvænn valkostur. Þeir eru ein besta leiðin til að ferðast milli staða með lágmarksmengun,“ segir Sif.

Bílastæði

Vodafone tók einnig í notkun tengiltvinnbíla (e. plug-in hybrid) en þá er hægt að hlaða á milli ferða. „Tengiltvinnbílarnir hafa allt að 60 kílómetra drægni á rafhlöðunni einni saman og nota því bensínvélina mun minna. Þeir henta okkur vel að því leyti að þegar það þarf að fara lengri leiðir eða utanbæjar þá er hægt að skipta yfir á eldsneytið,“ upplýsir Sif.

Sérstök hleðslustæði eru fyrir bíla Vodafone og þar er hægt að leggja þeim að jafnt degi sem nóttu til að hlaða þá.

„Rafmagnið sem við notum á Íslandi er nánast allt framleitt með vistvænum hætti. Við vinnum meira rafmagn á hvern íbúa en nokkur önnur þjóð, rafmagnið er hreint og umtalsvert ódýrara en jarðefnaeldsneyti. Það er því hentugt að reka rafbíla á Íslandi ásamt því að flestar bílferðir okkar eru frekar stuttar,“ segir Sif.

Vodafone leggur líka ríka áherslu á heilbrigði og vellíðan starfsmanna á vinnustaðnum.

„Við styðjum starfsfólk okkar til að stunda vistvænar samgöngur, til dæmis með því að veita samgöngustyrk sem starfsfólk er duglegt að nýta sér en almenningssamgöngur eru mjög aðgengilegar frá Suðurlandsbrautinni. Við bjóðum starfsfólki okkar einnig upp á að hlaða einkabílana sína í hleðslustöðvum í bílastæðahúsinu við höfuðstöðvar okkar og höfum tekið eftir töluverðri aukningu í rafbílum meðal starfsmanna okkar. Við erum einnig að taka í notkun upphitaða hjólageymslu með hleðslu fyrir rafknúin reiðhjól. Þá erum við líka með hleðslustöðvar fyrir framan höfuðstöðvarnar fyrir viðskiptavini okkar,“ upplýsir Sif sem hefur sjálf ekið eingöngu á rafknúnum bíl undanfarin þrjú ár.

„Þetta er fjárfesting í upphafi en til lengri tíma sparar það stórfé, bæði mér sem einstaklingi og einnig þjóðinni allri, svo ekki sé minnst á þau jákvæðu loftslagsáhrif sem það hefur.“