Við notum vefkökur til að bæta upplifun þína á síðunni. Með því að halda áfram að vafra um síðuna samþykkir þú skilmála okkar um notkun á vefkökum, að öðrum kosti getur þú kynnt þér hvernig má stýra notkun þeirra.

Guðfinnur Sigurvinsson

Samskiptastjóri

25. janúar 2019

Íslenskir eðalþættir á Stöð 2 í febrúar

Stöð 2 í febrúar

Óhætt er að segja að metnaðarfull innlend dagskrárgerð standi í miklum blóma á Stöð 2 í febrúar en glænýir þættir birtast áhorfendum á skjánum sem munu án efa vekja verðskuldaða athygli.

Heimsókn eru frábærir þættir með Sindra Sindrasyni sem áhorfendur Stöðvar 2 þekkja vel en í þáttunum lítur Sindri inn hjá íslenskum fagurkerum. Heimilin eru jafn ólík og þau eru mörg en eiga það þó eitt sameiginlegt að vera sett saman af alúð og smekklegheitum. Sindri hefur líka einstakt lag á að ná fram því besta í viðmælendum sínum. Heimsókn fer aftur á dagskrá miðvikudaginn 13. febrúar.

Um land allt í umsjón Kristjáns Más Unnarssonar snýr aftur eftir áramót mánudaginn 4. febrúar. Í þessum frábæru þáttum heimsækir Kristján Már samfélög vítt og breitt um landið, heilsar upp á fólk í leik og starfi og heyrir þau sjónarmið sem helst brenna á fólki í ólíkum byggðum.

Við minnum á að önnur þáttaröðin af Burðardýrum þar sem fjallað er um Íslendinga sem flækst hafa inn í skuggavef alþjóðlegs eiturlyfjasmygls verður áfram á dagskrá út febrúar. Í hverjum þætti heyrum við sannar sögur af því hvernig skipuleggjendur eiturlyfjasmygls nýta sér neyð fórnarlamba, nota hótanir og ofbeldi til að fá vilja sínum framgengt. Í þáttunum kynnumst við manneskjunum á bakvið fyrirsagnirnar, fólkinu sem við köllum í daglegu máli burðardýr.

Ef við kíkjum aðeins á það sem er framundan á Stöð 2 í mars ber þar hæst Viltu í alvöru deyja? sem er ný áhrifamikil þáttaröð úr smiðju Lóu Pind. Fyrsti þátturinn fer í loftið sunnudaginn 3. mars en þar ræðir Lóa við foreldra, systkini, maka og börn þeirra sem hafa svipt sig lífi. Einnig kynnumst við ungri konu sem var í sjálfsvígshættu fyrir fáeinum mánuðum. Tugir Íslendinga svipta sig lífi á hverju ári. Dýrmæt líf tapast og eftir sitja ástvinir sem bera sorgina með sér árum og jafnvel áratugum saman og spurningar, sem enginn nema hinn látni getur svarað. Hvað hrekur fólk út á ystu nöf? Hvað getum við gert til að hjálpa fólki sem finnst dauðinn betri kostur en lífið sjálft?

Tryggðu þér áskrift að Stöð 2 strax í dag!