Við notum vefkökur til að bæta upplifun þína á síðunni. Með því að halda áfram að vafra um síðuna samþykkir þú skilmála okkar um notkun á vefkökum, að öðrum kosti getur þú kynnt þér hvernig má stýra notkun þeirra.

Guðfinnur Sigurvinsson

Samskiptastjóri

17. desember 2018

Fréttastofan flytur á Suðurlandsbraut 10

Fyrsti fréttalesturinn á Suðurlandsbraut 10

Langþráðum áfanga var náð þegar fréttastofa Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar kvaddi Skaftahlíðina og flutti nú fyrir helgi á Suðurlandsbraut, þar sem höfuðstöðvar og önnur starfsemi Sýnar hf. eru til húsa. Nokkur spenna var í lofti á Suðurlandsbrautinni þar sem keyrt var á nýju bráðabirgðamyndveri fréttastofu Stöðvar 2 en því var slegið upp á framtíðarkaffistofu fréttastofunnar.

Fréttastofa Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar er á þriðju hæð Suðurlandsbrautar 10 en nýtt myndver verður staðsett í bakhúsi þar. Öll önnur starfsemi Sýnar er til húsa á Suðurlandsbraut 8. Þykir heppilegt að hafa þetta skipulag á húsakostinum þar sem það rennir styrkari stoðum undir ritstjórnarlegt sjálfstæði fréttastofunnar.

Flutningar frettastofu 2

Þórir Guðmundsson ritstjóri las fyrsta fréttatímann og fórst það einkar vel úr hendi enda hokinn af reynslu. „Það eru reyndar rúmlega tíu ár síðan ég las fréttir síðast í sjónvarpi – en við erum með landsliðið í fréttalestri á Stöð 2 þannig að ég reyndi bara að fylgja forskriftinni.“

„Þessir flutningar hafa gengið alveg ótrúlega vel, enda undirbúnir í þaula af starfsmönnum Sýnar,“ segir Þórir. „Sérstaklega verður að nefna hlut strákanna í notendaþjónustunni sem lögðu nótt við dag til að fréttastofan með öllum sínum kerfum væri tengd frá fyrsta degi. Þá hafa tæknimenn í sjónvarpi sett einhvers konar hraðamet í flutningum á öllum þeim tækjum og tengingum sem þurfti til að við kæmumst í loftið með burðugan kvöldfréttatíma á Stöð 2 á fimmtudag.“

Þó að flutningarnir hafi tekið mikla athygli stjórnenda fréttastofunnar undanfarið þá hafa þeir einnig verið að útfæra stefnumótunarvinnu sem fór fram fyrr á árinu. Þannig er búið að birta ritstjórnarstefnu fréttastofunnar og vinna ítarlega áætlun um að koma stefnunni í framkvæmd á komandi árum.

„Kjarnaverkefni okkar verður áfram að birta fréttir sem upplýsa almenning – en það er mikill munur að gera það í svona frábæru vinnuumhverfi, að ég tali nú ekki um að hafa þessa tignarlegu fjallasýn fyrir augum á hverjum degi,“ segir Þórir að lokum.

Flutningar frettastofu 3