Við notum vefkökur til að bæta upplifun þína á síðunni. Með því að halda áfram að vafra um síðuna samþykkir þú skilmála okkar um notkun á vefkökum, að öðrum kosti getur þú kynnt þér hvernig má stýra notkun þeirra.

Guðfinnur Sigurvinsson

Samskiptastjóri

29. apríl 2019

Flórídafanginn og Chernobyl á Stöð 2 í maí

Stöð 2 í maí

Stöð 2 slakar ekkert á þótt sumar og sól láti á sér kræla og býður áhorfendum sínum upp á hágæða íslenskt og erlent sjónvarpsefni í maí. Við sýnum nýja íslenska heimildarþætti Flórídafangann um Magna Böðvar Þorvaldsson eða Johnny Johnson, eins og hann er þekktur ytra, sem situr nú af sér 20 ára dóm fyrir morð. Málið hófst í Jacksonville árið 2012 þegar Sherry Lee Prather hvarf sporlaust en lík hennar fannst síðar í skógi fyrir utan bæinn. Magni Böðvar, eða Johnny, var handtekinn fyrir morðið í nóvember 2016 og játaði að lokum glæpinn.

Næturgestir er ný þáttaröð í umsjón Péturs Jóhanns Sigfússonar en í þáttunum flakkar Pétur Jóhann um landið í leit að yfirnáttúrulegri upplifun. Pétur heimsækir reimleikaslóðir ásamt frægum vinum sínum og dvelur þar næturlangt með hugrekkið og myndavélina að vopni. Í Sporðaköstum, nýjum veiðiþáttum, fer Eggert Skúlason í ferðalag þar sem góður félagsskapur og íslensk náttúra er í fyrirrúmi. Í hverjum þætti fylgjumst við með nýjum veiðimanni en allir viðmælendurnir eiga það sameiginlegt að vera stórskemmtilegir og flinkir með stöngina.

Áhorfendur eiga von á góðu úr erlendu deildinni því væntanlegir eru í sýningar á Stöð 2 Chernobyl vandaðir nýir þættir frá HBO og Sky sem byggðir eru á sannsögulegum atburðum sem áttu sér stað í Tsjernobyl í Úkraínu árið 1986. Eitt mesta kjarnorkuslys sögunnar varð í kjarnorkuveri þar í borg þegar geislavirk efni sluppu út í andrúmsloftið og höfðu hörmulega áhrif á umhverfið. Þetta er saga þeirra sem unnu í kjarnorkuverinu, bjuggu þar í kring og þeirra sem unnu að því að sporna við frekari eyðileggingu. Með aðalhlutverk fara Jared Harris, Stellan Skarsgaard og Emily Watson. Leikstjórn er í höndum Johan Renck (Breaking Bad) en Íslendingurinn Hildur Guðnadóttir sér um tónlistina í þáttunum.

Gentleman Jack er mögnuð ný þáttaröð frá HBO sem byggð er á sönnum atbörðum. Sögusviðið er England á fyrri hluta 19. aldar en aðalpersónan er landeigandinn Anne Lister sem lætur rótgrónar hugmyndir og viðhorf samfélagsins um konur og hlutverk þeirra sem vind um eyru þjóta. Anne Lister fer sínar eigin leiðir í lífinu og með elju og dugnaði, sem ekki þótti sæma kvenfólki á þessum tíma, hyggst hún endurreisa ættaróðalið Shibden Hall sem er í niðurníslu.

Við bendum líka á nýja dramatíska þáttaröð The Red Line sem segir frá lífi þriggja fjölskyldna sem tengjast órjúfanlegum böndum eftir að hafa upplifað skelfilegan atburð. Lögreglumaður í Chicago skýtur þeldökkan lækni í misgripum fyrir búðarræningja og í kjölfarið fylgjumst við með atburðarásinni út frá sjónarhorni hverrar fjölskyldu fyrir sig.