Við notum vefkökur til að bæta upplifun þína á síðunni. Með því að halda áfram að vafra um síðuna samþykkir þú skilmála okkar um notkun á vefkökum, að öðrum kosti getur þú kynnt þér hvernig má stýra notkun þeirra.

Guðfinnur Sigurvinsson

Samskiptastjóri

3. október 2018

Bleikur október

Bleikar höfuðstöðvar

Bleika slaufan, árveknis- og fjáröflunarátak Krabbameinsfélags Íslands gegn krabbameini hjá konum, fer fram í þessum mánuði og því má sjá bleika litinn njóta sín vítt og breitt í samfélaginu. Sýn leggur þessu átaki lið og eru höfuðstöðvarnar við Suðurlandsbraut baðaðar í bleika litnum allan október.

Föstudaginn 12. október næstkomandi verður Bleiki dagurinn haldinn hátíðlegur um allt land. Af því tilefni ætlar starfsfólk Sýnar að klæðast einhverju bleiku og hafa bleikan litinn í fyrirrúmi með fjölbreytilegum hætti. Með því viljum við sýna okkar samstöðu.

„Það er okkur hjá Sýn heiður að taka þátt í Bleiku slaufunni enda snertir málefnið okkur öll og margt starfsfólk okkar með beinum hætti. Vitundarvakningin er aðalatriðið í þessum mánuði en þetta er líka skemmtilegt átak sem gerir góða stemningu á vinnustaðnum, sér í lagi á Bleika daginn. Starfsfólk er mjög hugmyndaríkt þegar kemur að því að útfæra bleika litinn í klæðaburði. Sjálfum finnst mér ánægjulegt að sjá höfuðstöðvar fyrirtækisins lýstar upp í bleika litnum nú þegar dagsbirtan minnkar dag frá degi,“ segir Stefán Sigurðsson forstjóri Sýnar.

Líkt og undanfarin 11 ár tileinkar Krabbameinsfélag Íslands októbermánuð baráttu gegn krabbameini hjá konum. Söfnunarfé Bleiku slaufunnar í ár verður varið til þeirrar fjölbreyttu starfsemi sem Krabbameinsfélagið stendur fyrir, með sérstakri áherslu á krabbamein hjá konum og hvatningu um að mæta í skimun fyrir brjósta- og leghálskrabbameinum.