Við notum vefkökur til að bæta upplifun þína á síðunni. Með því að halda áfram að vafra um síðuna samþykkir þú skilmála okkar um notkun á vefkökum, að öðrum kosti getur þú kynnt þér hvernig má stýra notkun þeirra.

Guðfinnur Sigurvinsson

Samskiptastjóri

6. mars 2018

Allur rekstur Fjarskipta hf. á einn stað við Suðurlandsbraut

Höfuðstöðvar Sýnar að Suðurlandsbraut í Reykjavík

Fjölmiðla- og fjarskiptafyrirtækið Fjarskipti hf. hefur náð samningum við fasteignafélögin EIK og Reiti um framtíðarhúsnæði sameinaðrar starfsemi. Fjarskipti hf. eru í dag með allt húsnæðið að Suðurlandsbraut 8 til afnota og munu nú bæta við sig rými í hluta hússins að Suðurlandsbraut 10. Um er að ræða hluta annarrar hæðar og þriðju hæð að Suðurlandsbraut 10 og samliggjandi bakhús við Suðurlandsbraut 10 sem tilheyrir Ármúla, nánar tiltekið bakhús á lóð Hótels Íslands. Þar með verður hægt að sameina alla starfsemi á sama stað á árinu, þar með talin mynd- og hljóðver.

Markmiðið er að tilfærsla núverandi eininga sem hýst eru á Suðurlandsbraut 8 hefjist á allra næstu vikum. Uppsetning hljóð- og myndvera getur svo hafist strax í kjölfarið. Stefnt er að því að stór hluti miðla, meðal annars útvarpsstöðvar, geti hafið flutninga í maí 2018. Aðstaðan að Suðurlandsbraut 10 ætti að vera tilbúin til notkunar í haust.

„Það er stór áfangi í sameiningunni að hafa náð skýrri áætlun í húsnæðismálum sem mun hjálpa okkur að skapa nýtt kraftmikið og sameinað fyrirtæki. Nú brettum við upp ermar og vinnum saman að því að klára þetta stóra verkefni hratt og vel og áður en við vitum af verðum við komin á einn stað með frábæra vinnuaðstöðu og tækifæri til framtíðar,“ segir Stefán Sigurðsson forstjóri Fjarskipta hf.

*Myndin sýnir áætlaða staðsetningu fjölmiðlanna að loknum flutningum.