Sýn hf.: Sýn hættir frekari skoðun á framtíðareignarhaldi Vefmiðla og útvarps
Stjórn Sýnar samþykkti á stjórnarfundi félagsins í dag að hætta frekari skoðun á framtíðareignarhaldi á rekstrareiningunni Vefmiðlar og útvarp.
Í lok árs 2023 var tilkynnt á uppgjörsfundi félagsins að Sýn hefði skipt fjölmiðlaeiningum félagsins upp í tvær rekstrareiningar, annars vegar Vefmiðla og útvarp og hins vegar Stöð 2. Í kjölfarið var kynnt að stjórn Sýnar hefði fengið Kviku banka hf. til að vinna greiningu á rekstri og virði Vefmiðla og útvarps ásamt því að sjá um miðlun á afmörkuðum fjárhagsupplýsingum til mögulegra fjárfesta.
Vegna nýrra áherslna í rekstri Sýnar með tilkomu nýs forstjóra og nýrrar stjórnar teljum við mikil verðmæti falin í framtíðartækifærum þessarar einingar. Því hefur verið ákveðið að hætta við skoðun á nýju eignarhaldi vefmiðla og útvarps en þess í stað verður lögð aukin áhersla á bættan rekstur félagsins. Í viku hverri nota 95% landsmanna á aldrinum 18-80 ára fjölmiðla Sýnar en þessir þekktu miðlar eru mikilvægur hluti af íslensku samfélagi. Það er stefna Sýnar að styrkja þessa þjónustu enn frekar til framtíðar.
Stjórn Sýnar hefur einnig falið forstjóra að hefja vinnu við mótun lykilmarkmiða og stefnu Sýnar í rekstri félagsins til framtíðar. Vinnan mun hefjast formlega eftir birtingu uppgjörs 1.ársfjórðungs félagsins. Afrakstur þeirrar vinnu verður kynntur fjárfestum á fjárfestadegi Sýnar síðar á þessu ári. Þar munu stjórnendur kynna stefnu og áherslur félagsins ásamt langtíma markmiðum og lykilmælikvörðum.
Nánari upplýsingar veitir Herdís Dröfn Fjeldsted forstjóri