Við notum vefkökur til að bæta upplifun þína á síðunni. Með því að halda áfram að vafra um síðuna samþykkir þú skilmála okkar um notkun á vefkökum, að öðrum kosti getur þú kynnt þér hvernig má stýra notkun þeirra.

7. Nóvember 2022 Sýn hf.

Sýn hf.: Samningur um viðskiptavakt við Íslandsbanka hf.

Sýn hf. hefur gert samning um viðskiptavakt við Íslandsbanka hf. á útgefnum hlutabréfum í Sýn hf. sem eru skráð á Nasdaq Iceland undir auðkenninu SYN.  Samningurinn tekur gildi þriðjudaginn 8. nóvember 2022.
Tilgangur samningsins er að efla viðskipti með hlutabréf bankans á Nasdaq Iceland í því skyni að seljanleiki hlutabréfa SYN aukist, markaðsverð skapist og verðmyndun hlutabréfanna verði með skilvirkum og gegnsæjum hætti. 

Samningurinn kveður á um að fjárhæð kaup- og sölutilboða skal vera að lágmarki 150.000 bréf að nafnverði á gengi sem Íslandsbanki hf. ákveður, þó ekki með meira en 3% fráviki frá síðasta viðskiptaverði. Eigi Íslandsbanki viðskipti með bréf félagsins fyrir 900.000 kr. að nafnvirði eða meira í sjálfvirkri pörun innan dags, falla niður skyldur um hámarksverðbil kaup- og sölutilboða innan þess dags.

Verðbil kaup- og sölutilboða skal ákvarðað með hliðsjón af verðskrefatöflu Kauphallarinnar eins og hún er hverju sinni þannig að verðbil verði sem næst 1,5% en þó ekki minna en 1,45%. Ef verðbreyting innan viðskiptadags er umfram 5% er Íslandsbanka heimilt að auka hámarksverðbil í 3%.

Sýn hf.  er einnig með í gildi samning um viðskiptavakt við Landsbankann, sem er efnislega samhljóða samningi sem greint var frá í kauphallartilkynningu Sýnar hf. frá 3. febrúar 2020.