Við notum vefkökur til að bæta upplifun þína á síðunni. Með því að halda áfram að vafra um síðuna samþykkir þú skilmála okkar um notkun á vefkökum, að öðrum kosti getur þú kynnt þér hvernig má stýra notkun þeirra.

19. Janúar 2022 Sýn hf.

Sýn hf.: Jákvæð afkomuviðvörun

Vinna að uppgjöri fjórða ársfjórðungs 2021 hefur leitt í ljós að bókun hagnaðar af sölu óvirkra farsímainnviða verður talsvert hærri en áður hafði verið gert ráð fyrir.

Reikningsskil félagsins eru gerð í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaða (IFRS). Í samræmi við kröfur þeirra staðla verður farið með viðskiptin sem sölu og endurleigu á eignum. Af þeirri ástæðu mun söluhagnaður ekki vera færður að fullu í gegnum rekstur á söludegi.

Í fyrri kauphallartilkynningu, dags. 1. apríl 2021, kom fram að söluhagnaðurinn myndi miðast við hlutfall milli gangvirðis eigna og núvirðis leiguskuldbindingar. Þáverandi mat miðaði við að það hlutfall yrði í kringum 80-85% og 15-20% af söluhagnaðinum því færður í gegnum rekstur á söludegi. Eftirstöðvum yrði frestað í því formi að þær yrðu færðar til lækkunar á leigueigninni. Fram kom að endanleg hlutföll hefðu ekki verið staðfest og forsendur gátu því breyst.

Í tengslum við uppgjör fjórða ársfjórðungs liggur nú fyrir sú niðurstaða að um 40% af söluhagnaði verður færður gegnum rekstur á söludegi, eða samtals um 2,6 ma.kr. Er þetta talsvert umfram fyrra mat sem lýst er hér að ofan. Frekari upplýsingar um framangreint sem og annað sem tengist starfsemi félagsins verða veittar á fjárfestadegi sem fer fram með rafrænum hætti þann 20. janúar n.k. kl. 16:00.