Við notum vefkökur til að bæta upplifun þína á síðunni. Með því að halda áfram að vafra um síðuna samþykkir þú skilmála okkar um notkun á vefkökum, að öðrum kosti getur þú kynnt þér hvernig má stýra notkun þeirra.

1. Apríl 2021 Sýn hf.

Sýn hf.: Sala og endurleiga óvirkra farsímainnviða

Sýn hf. hefur í dag undirritað samninga við erlenda fjárfesta um sölu og endurleigu (e. sale and leaseback) á óvirkum farsímainnviðum félagsins. Viðskiptin munu styrka efnahagsreikning félagsins og nemur væntur söluhagnaður yfir 6 milljörðum króna.  

Reikningsskil félagsins eru gerð í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaða (IFRS). Í samræmi við kröfur þeirra staðla verður farið með viðskiptin sem sölu og endurleigu á eignum. Af þeirri ástæðu mun meðferð þess söluhagnaðar sem verður af viðskiptunum ekki vera færður að fullu í gegnum rekstur á söludegi. Söluhagnaðurinn mun hlutfallast miðað við hlutfall gangvirðis og núvirðis væntrar leiguskuldbindingar. Núverandi mat miðar við að það hlutfall sé í kringum 80-85%. Miðað við þær forsendur mun 15-20% af söluhagnaðinum verða færður í gegnum rekstur á söludegi en hinum hlutanum  frestað í því formi að hann er færður til lækkunar á leigueigninni sem leiðir til lægri afskrifta yfir samningstímann. Endanleg hlutföll hafa ekki verið að fullu staðfest og því geta forsendur breyst. 
Samhliða var gerður langtímaleigusamningur, sem tryggja mun áframhaldandi aðgang félagsins að hinum óvirku farsímainnviðum. Allur virkur farsímabúnaður verður áfram í eigu Sýnar hf.

Áhrif viðskiptanna á EBITDA eru óveruleg þar sem afnotaréttur í kjölfar viðskiptanna verður mun lægri fjárhæð en sú leiguskuldbinding sem færð verður í efnahagsreikning félagsins. Vaxtagjöld af leiguskuldbindingunni verða færð í gegnum fjármagnsliði.
Viðskiptin munu styrkja efnahagsreikning félagsins og lausafjárstöðu þess.

Samningarnir eru með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins, auk annarra hefðbundinna fyrirvara um viðskipti af þessum toga.