Við notum vefkökur til að bæta upplifun þína á síðunni. Með því að halda áfram að vafra um síðuna samþykkir þú skilmála okkar um notkun á vefkökum, að öðrum kosti getur þú kynnt þér hvernig má stýra notkun þeirra.

24. Febrúar 2021 Sýn hf.

Sýn hf.: Ár viðsnúnings

Ársreikningur samstæðu Sýnar hf. fyrir árið 2020 var samþykktur á stjórnarfundi þann 24. febrúar 2021. 

 Helstu niðurstöður:

  •  Tekjur á fjórða ársfjórðungi (4F) 2020 námu 5.413 m.kr. sem er aukning um 478 m.kr. frá sama tímabili árið 2019. Tekjur ársins 2020 hækkuðu um 975 m.kr. milli ára, eða um 4,9%. Heimsfaraldur hefur haft talsverð áhrif á bæði reikitekjur og auglýsingatekjur félagsins.
  • EBITDA nam 1.427 m.kr. á 4F í samanburði við 1.409 m.kr. á sama tímabili í fyrra. EBITDA hlutfallið er 26,4% á 4F 2020 samanborið við 28,6% á 4F 2019. EBITDA ársins 2020 nam 5.739 m.kr. og hækkaði um 230 m.kr. miðað við árið 2019. EBITDA hlutfallið er 27,6% á árinu 2020 samanborið við 27,8% á árinu 2019.
  • Tap á 4F 2020 nam 3 m.kr. samanborið við 2.132 m.kr. tap á sama tímabili í fyrra. Tap ársins 2020 nam 405 m.kr. samanborið við 1.748 m.kr. tap árið 2019. Virðisrýrnun að fjárhæð 2.452 m.kr. var færð í 4F 2019. Söluhagnaður að fjárhæð 872 m.kr. vegna sölu á færeyska dótturfélaginu P/F Hey er innifalinn í hreinum vaxtagjöldum árið 2019.
  • Handbært fé frá rekstri á fjórðungnum nam 2.051 m.kr. samanborið við 1.953 m.kr. á sama tímabili árið áður, sem er hækkun um 5%. Handbært fé frá rekstri á árinu 2020 nam 5.912 m.kr. samanborið við 5.377 m.kr. árið 2019, sem er aukning um 10%.
  • Heildarfjárfestingar ársins 2020 námu 3.516 m.kr. þar af eru fjárfestingar í varanlegum rekstrarfjármunum og óefnislegum eignum (án sýningarrétta) 1.049 m.kr. og fjárfesting í sýningarréttum 2.511 m.kr. Greiðsla vegna kaupa á eignarhluta nam 100 m.kr. og móttekinn arður 144 m.kr.
  • Fjármögnunarhreyfingar á árinu voru neikvæðar um 2.238 m.kr. á móti 380 m.kr. á sama tímabili árið 2019 sem er aukning um 1.858 m.kr.  
  • Eiginfjárhlutfall félagsins var 27,8% í lok ársins 2020.
  • Áætlanir félagsins gera ráð fyrir að heimsfaraldurinn haldi áfram að hafa áhrif á rekstur félagsins, sér í lagi reikitekjur og kostnað í erlendri mynt, en væntingar eru um að það dragi úr neikvæðum áhrifum þegar líður á árið. Áfram verður unnið í takt við stefnu félagsins sem var innleidd sumarið 2019 þar sem áhersla er á góða þjónustu, einföldun rekstrar, aukna sjálfvirknivæðingu og sterkara og skýrara vöruframboð.
  • Það er óbreytt markmið stjórnenda að ná aukinni EBITDA framlegð úr rekstri félagsins á árinu 2021. Fjárfestingar ársins eru áætlaðar á bilinu 1.000 – 1.500 m.kr.  


 Heiðar Guðjónsson, forstjóri:

,, Heimsfaraldurinn hafði töluverð áhrif á reksturinn á árinu. Ef við leiðréttum fyrir því er ljóst að árangur af nýrri stefnu hefði skilað okkur hagnaði á árinu 2020. Við höfum unnið hart að því að framfylgja þeirri stefnu sem við settum okkur á árinu 2019, að rækta langtíma viðskiptasamband við okkar viðskiptavini sem byggir á virðingu og trausti. Í maí settum við herferð í loftið sem bar heitið Nýtt upphaf. Hluti af þessu verkefni var að tryggja að allir okkar viðskiptavinir væru í réttum þjónustuleiðum. Skemmst er að segja frá því að í lok árs höfðu þjónustuleiðir 25.000 heimila verið yfirfarnar. Verkefnið hlaut frábærar viðtökur hjá viðskiptavinum okkar, sem birtist meðal annars í aukinni ánægju í mælingum okkar, þeim hæstu í sögu fyrirtækisins, en einnig í Ánægjuvoginni fyrir árið 2020. Þessi aðgerð leiðir til lækkunar á tekjum til skemmri tíma en við trúum því að til lengri tíma skili þetta okkur betri árangri. Við ætlum okkur auðvitað að geta mætt óvæntum ytri áföllum og erum í því augnamiði að straumlínulaga reksturinn enn frekar. 

Fjölmiðlahlutinn nær alltaf til fleiri

Með breytingum á vöruframboði hefur okkur tekist að fjölga viðskiptavinum Stöðvar 2. Þeim fjölgaði um 14% á árinu 2020. Við höfum stöðugt lækkað verð frá því tókum yfir fjölmiðlareksturinn. Verð á Stöð 2 Sport hefur helmingast á síðustu 3 árum og nú bjóðum við upp á að kaupa áskrift að Stöð 2 Ísland og Stöð 2 Erlent á áður óþekktum verðpunkti, eða á 3.990 kr.

Efnisveitan okkar Stöð 2+ er í miklum vexti og á síðasta ári fjölgaði áskrifendum um 9% á árinu. Stöð 2+ er stærsta efnisveitan með íslenskt efni og hefur algera sérstöðu á markaði.

Bylgjan er sem fyrr stærsta útvarpsstöð landsins og FM957 og X-ið halda sínu. Vísir er svo orðinn stærsti vefur landsins í fyrsta skipti í sögunni. Ég bind miklar vonir við Vísi og tel að hann eigi mikið inni á komandi árum.

 Að skilja frá innviði

Á árinu stigum við mjög mikilvægt skref í þá veru að auka skilvirkni á markaði með því að hefja söluviðræður um óvirka innviði fjarskiptakerfisins. Með því getum við gert meira fyrir minna. Þá aukast líka tækifærin til sameiginlegrar uppbyggingar á 5G. Á sama tíma gefst tækifæri til að losa um fé og greiða upp skuldir sem stofnað var til við kaup á fjölmiðlaeignum árið 2017. Allt miðar þetta í sömu átt, að gera fyrirtækið sveigjanlegra, hluthöfum og viðskiptavinum til hagsbóta.

Samkomulag hefur tekist í öllum megin atriðum varðandi sölu á óvirkum innviðum farsímakerfisins. Fjárhagslegir skilmálar verða í samræmi við fyrri tilkynningar til Kauphallar. Stjórn félagsins hefur veitt stjórnendum umboð til að undirrita nauðsynleg skjöl á þeirri forsendu að skjalagerð verði að fullu lokið í síðasta lagi fyrir birtingu árshlutareiknings 1. fjórðungs 2021, en stefnt er að því að undirritun samninga takist vel fyrir þann tíma.   Samningarnir verða með fyrirvara um samþykki hlutaðeigandi eftirlitsaðila.  

Framtíð fjarskipta

Það er oft sagt að 5G geri það sama fyrirtæki og heimili og 4G gerði fyrir einstaklinginn. 4G tæknin færði háhraða fjarskiptanet í hendur almennings sem gat óhikað streymt, tekið á móti streymi og nánast stundað vinnu með snjallsíma einan að vopni, eins og glögglega hefur komið fram á síðustu misserum. Hlutanet (e. Internet of Things, IoT) er einn angi af fjarskiptum framtíðar. Þar náðust miklir áfangar á árinu 2020.

Við höfum unnið með Controlant í yfir áratug. Við bjuggum til fyrstu sérhæfðu kortin sem fyrirtækið gat notað í mæla sína. Með samningi Controlant við lyfjageirann hefur vöxtur okkar í IoT verið ævintýralegur. Við höfum gert Ísland að eina landi heims sem hefur fleiri útistandandi símkort fyrir tæki en fyrir fólk. Við þetta bætist að við erum að fara tengja alla nýja snjallmæla Veitna á um 160.000 stöðum. Til viðbótar við þetta hefur samstarf okkar við Vodafone Global gert það að verkum að nánast allir nýir bílar sem koma til landsins frá og með þessu ári munu tengjast við símkerfi okkar, sem aftur léttir á viðhaldi bíla, minnkar kostnað við bilanagreiningu og eykur öryggi allra. Þarna eru við í algerum farabroddi í uppbyggingu fjarskiptakerfis framtíðar. 

Við kveiktum á fyrsta sendinum fyrir 5G í farsíma í september 2020. Við höfum farið mun hægar en við ætluðum okkur í þá uppbyggingu því skilmálar stjórnvalda varðandi úthlutun varanlegra tíðniheimilda liggja ekki fyrir.“


Viðhengi