Við notum vefkökur til að bæta upplifun þína á síðunni. Með því að halda áfram að vafra um síðuna samþykkir þú skilmála okkar um notkun á vefkökum, að öðrum kosti getur þú kynnt þér hvernig má stýra notkun þeirra.

4. Nóvember 2020 Sýn hf.

Sýn hf.: Rekstrarbati og mikilvægar breytingar til framtíðar

Árshlutareikningur samstæðu Sýnar hf. fyrir fyrstu níu mánuði ársins 2020 var samþykktur á stjórnarfundi þann 4. nóvember 2020.

Helstu niðurstöður:

  • Tekjur á þriðja ársfjórðungi (3F) 2020 námu 5.026 milljónum króna sem er aukning um 148 milljónir frá sama tímabili árið 2019. Tekjur Endor ehf. á 3F 2020 námu 443 milljónum króna. Tekjur á fyrstu níu mánuðum ársins hækkuðu um 497 milljónir króna milli ára, eða um 3%.
  • EBITDA nam 1.593 milljónum króna á 3F í samanburði við 1.623 milljónir króna á sama tímabili í fyrra. EBITDA hlutfallið er 31,7% á 3F 2020 samanborið við 33,3% á 3F 2019. EBITDA á fyrstu níu mánuðum ársins 2020 nam 4.312 milljónir króna og hækkaði um 212 milljónir króna miðað við sama tímabil 2019. EBITDA hlutfallið er 28% á fyrstu níu mánuðunum 2020 samanborið við 27,6% á sama tímabili 2019.
  • Hagnaður á 3F 2020 nam 8 milljónum króna samanborið við 71 milljóna króna tap á sama tímabili í fyrra. Tap á fyrstu níu mánuðum ársins nam 402 milljónum króna samanborið við 384 milljóna króna hagnað á sama tímabili árið 2019. Inni í hagnaði fyrstu níu mánuði ársins 2019 var söluhagnaður að fjárhæð 817 milljónir króna vegna sölu á færeyska dótturfélaginu Hey.
  • Handbært fé frá rekstri á fjórðungnum nam 1.055 milljónum króna samanborið við 1.235 milljónir króna á sama tímabili árið áður, sem er lækkun um 15%. Handbært fé frá rekstri á fyrstu níu mánuðum ársins nam 3.855 milljónum króna samanborið við 3.424 milljónir króna á sama tímabili árið áður, sem er aukning um 13%.
  • Heildarfjárfestingar félagsins á fyrstu níu mánuðum ársins námu 2.345 milljónum króna þar af eru fjárfestingar í varanlegum rekstrarfjármunum og óefnislegum eignum (án sýningarrétta) 764 milljónir króna og fjárfesting í sýningarréttum 1.581 milljónir króna.
  • Fjármögnunarhreyfingar á fyrstu níu mánuðum ársins voru neikvæðar um 1.932 milljónir króna á móti 600 milljónum króna á sama tímabili árið 2019 sem er aukning um 1.332 milljónir króna.
  • Eiginfjárhlutfall félagsins var 27,7% í lok þriðja fjórðungs 2020.
  • Það er óbreytt markmið stjórnenda að ná aukinni EBITDA framlegð og betra sjóðstreymi úr rekstri félagsins á árinu 2020. Skipulega er unnið að slíkri breytingu en ekki er að fullu fyrirséð að hve miklu leyti COVID-19 faraldurinn muni hafa áhrif á þetta markmið. Fjárfestingar ársins í varanlegum rekstrarfjármunum og óefnislegum eignum (án sýningarrétta) verða í kringum 1 milljarður.

Heiðar Guðjónsson, forstjóri:

„Mikilvægar breytingar til framtíðar.

Reksturinn heldur áfram að batna. Það eru áfram áskoranir á auglýsingamarkaði og reikitekjur féllu nær alfarið út í uppgjörinu. Á móti kemur að aðrir liðir eru á uppleið. Ánægja viðskiptavina er að batna hratt, sem skiptir mestu máli til lengri tíma litið, og við sjáum fram á fjölgun viðskiptavina.

Í hverju árshlutauppgjöri þessa árs höfum við fjallað um þá stefnu okkar að minnka fastan kostnað fyrirtækisins. Að útvista meiru, breyta föstum kostnaði í breytilegan, og einfalda reksturinn. Nú hillir undir mikilvægar breytingar þar að lútandi. Með undirritun samnings um einkaviðræður um sölu á óvirkum hluta farsímakerfisins erum við bjartsýn á að ná að losa um mikil verðmæti sem ekki nýtast sem skyldi í rekstri. Við sjáum fram á um 6 milljarða söluhagnað án þess að framlegð (EBITDA) breytist að nokkru ráði. Í þessum viðskiptum seljum við óvirka innviði farsímakerfisins á um 200 af þeim ríflega 600 fjarskiptastöðum sem við eigum farsímabúnað á. 

Innviðir fyrirtækisins verða áfram sterkir. Til viðbótar við öflugt farsímakerfi sem þjónustar yfir 99,8% landsmanna með háhraða tengingu eigum við landsdekkandi fastlínukerfi, landsdekkandi sjónvarps- og útvarpsdreifikerfi og annað af tveimur IPTV kerfum landsins.  Félagið er þannig með virkan búnað á yfir 800 stöðum um land allt. 

Það er mikilvægt að laga efnahagsreikning fyrirtækisins til að búa það í haginn fyrir framtíðina. Langtímaskuldir, utan leiguskuldbindinga, lækka á milli uppgjöra og nema 10,4 milljörðum. Við sölu á innviðum er ljóst að fyrirtækið getur orðið mjög skuldlétt.

Það ríkir óvissa um 5G-væðingu vegna afskipta stjórnvalda af framleiðendum fjarskiptabúnaðar og uppbygging er í raun þegar farin að tefjast vegna þeirrar óvissu, sem aftur bitnar á hagvexti framtíðar. Búnaður allra framleiðenda á vitaskuld að lúta sömu ströngu öryggiskröfunum, annað væri falskt öryggi og hrein mismunum á samkeppnisstöðu fyrirtækja á markaði.“

  • Tekið er á móti fyrirspurnum í gegnum netfangið fjarfestatengsl@syn.is.

Viðhengi