Við notum vefkökur til að bæta upplifun þína á síðunni. Með því að halda áfram að vafra um síðuna samþykkir þú skilmála okkar um notkun á vefkökum, að öðrum kosti getur þú kynnt þér hvernig má stýra notkun þeirra.

26. Febrúar 2020 Sýn hf.

Niðurstaða í samræmi við horfur

Í ársbyrjun var meðferð á sýningarrétti sjónvarpsefnis breytt, samanburðartölur 2018 hafa verið uppfærðar í samræmi við breytta meðhöndlun.

Helstu niðurstöður:

• Tekjur á fjórða ársfjórðungi (4F) 2019 námu 4.935 milljónum króna sem er 9% lækkun frá sama tímabili 2018. Tekjur ársins lækkuðu um 943 milljónir króna milli ára, eða um 5%.

• EBITDA nam 1.409 milljónum króna á 4F í samanburði við 1.449 milljónir króna á sama tímabili í fyrra. EBITDA hlutfallið er 28,6% á 4F 2019 samanborið við 26,7% á 4F 2018. EBITDA leiðrétt fyrir IFRS 16 á 4F er 1.270 milljónir króna. EBITDA ársins 2019 nam 5.509 milljónum króna og lækkaði um 110 milljónir króna miðað við árið 2018.

• Tap á 4F 2019 nam 2.101 milljónum króna samanborið við 193 milljón króna hagnað á sama tímabili í fyrra. Á 4F 2019 var viðskiptavild færð niður um 2.452 milljónir króna sem skýrir tapið á 4F 2019. Afkoma 4F 2019 að frádreginni niðurfærslu viðskiptavildar hefði verið hagnaður að fjárhæð 351 milljón króna.

• Tap ársins nam 1.748 milljónum króna miðað við hagnað upp á 443 milljónir króna árið 2018. Hagnaður ársins að frádreginni niðurfærslu á viðskiptavild var 703 milljónir króna. Einskiptiskostnaður ársins nemur 358 milljónum króna.

• Handbært fé frá rekstri á fjórðungnum nam 1.953 milljónum króna samanborið við 1.358 milljónir króna á sama tímabili árið áður, sem er aukning um 44%.

• Heildarfjárfestingar félagsins á árinu námu 4.719 milljónum króna þar af eru fjárfestingar í varanlegum rekstrarfjármunum og óefnislegum eignum (án sýningarrétta) 1.833 milljónir króna og fjárfesting í sýningarréttum 2.789 milljónir króna.

• Fjármögnunarhreyfingar félagsins á árinu voru neikvæðar um 380 milljónir króna á móti jákvæðum hreyfingum upp á 434 milljónum króna á árinu 2018 sem er breyting um 814 milljónir króna.

• Eiginfjárhlutfall Sýn hf. var 27,5% í lok árs 2019.

• Markmið stjórnenda er að ná aukinni framlegð og betra sjóðstreymi úr rekstri félagsins á árinu 2020. Fjárfestingar ársins verða í kringum 1 milljarð.


Heiðar Guðjónsson, forstjóri:

„Uppgjör síðasta árs liggur nú fyrir með tap uppá 1.748 milljónir króna. Það ætti ekki að vera margt þar sem kemur á óvart enda eru sjóðstreymi og EBITDA ársins í takt við horfur. Árið markast af því að verið var að framkvæma miklar breytingar á rekstrinum og færa niður viðskiptavild. Jákvæð breyting er verulega bætt sjóðstreymi en frjálst fjárflæði eykst um yfir milljarð króna.

Á síðasta ári fór fyrirtækið fyrst í sameiginlega stefnumótun. Í framhaldi af því var skipuriti breytt og nýir framkvæmdastjórar eru nú í öllum stöðum, utan tæknisviðs. Tæknisviði var skipt upp og sett að hluta undir rekstrarsvið, sem mun auk skilvirkni og hraða framförum í starfrænni aðlögun. Við innleiddum nýja vörumerkja– og samskiptastefnu og fórum í framhaldi af því í 4DX átaksverkefni. Ánægja viðskiptavina jókst strax umtalsvert í kjölfarið. Nú erum við í stöðu til að sækja fram.

Lykill að betri rekstrarárangri er að umbreyta föstum kostnaði í breytilegan. Þar eru ýmis verkefni í gangi. Við erum að auka útvistun verkefna auk þess sem við erum enn að hagræða með því að efla frekari samvinnu á milli deilda fyrirtækisins. Varðandi framtíð fjarskipta þá skiptir mestu að fjárfestingar séu markvissar með tilliti til öryggis og hagkvæmni. Mikilvægur liður í því var yfirlýsing fjarskiptafyrirtækjanna frá 19. desember síðast liðnum, þó enn sé of snemmt að fullyrða um árangur af því starfi.

Horfur ársins 2020 eru ágætar. Við vitum að í óbreyttum rekstri munum við sýna bata í sjóðstreymi. Ofan á það kemur enn straumlínulagaðri rekstur og hugsanlegt hagræði af samstarfi í uppbyggingu 5G og tengdra verkefna sem gerir það að verkum að erfitt er styðjast við sama form á horfum og áður hefur verið. Eldra form á horfum nær ekki utan um þær breytingar sem við ætlum að gera á rekstrinum.“


Frekari upplýsingar:
✓ Lilja Birgisdóttir samskiptastjóri Sýnar tekur á móti fyrirspurnum í gegnum netfangið fjarfestatengsl@syn.is eða í síma 779-3002.

Viðhengi