Við notum vefkökur til að bæta upplifun þína á síðunni. Með því að halda áfram að vafra um síðuna samþykkir þú skilmála okkar um notkun á vefkökum, að öðrum kosti getur þú kynnt þér hvernig má stýra notkun þeirra.

28. Ágúst 2019 Sýn hf.

Sýn hf.: Afkoma undir væntingum en bjartari tímar framundan


Árshlutareikningur Sýnar hf. fyrir fyrri árshelming ársins 2019 var samþykktur af stjórn og forstjóra félagsins á stjórnarfundi þann 28. ágúst 2019.

Í ársbyrjun var meðferð á sýningarrétti sjónvarpsefnis breytt, samanburðartölur 2018 hafa verið uppfærðar í samræmi við breytta meðhöndlun.

Helstu niðurstöður úr rekstri:

• Tekjur á öðrum ársfjórðungi námu 5.023 m.kr. sem er 3% lækkun á milli tímabila. Tekjur á fyrri árshelmingi lækkuðu um 189 m.kr. milli ára, eða um 2%.
• EBITDA nam 1.216 m.kr. á ársfjórðungnum í samanburði við 1.279 m.kr. á sama tímabili í fyrra. EBITDA hlutfallið er 24,2% á 2F 2019 samanborið við 24,6% á 2F 2018. EBITDA á fyrri árshelmingi 2019 nam 2.476 m.kr og lækkaði um 8 m.kr miðað við fyrri árshelming 2018. EBITDA 1H 2019 leiðrétt fyrir áhrifum IFRS 16 var 2.165 m.kr. samanborið við 2.468 m.kr. á 1H 2018 sem er lækkun um 303 m.kr.
• Tap á ársfjórðungnum nam 215 m.kr. sem er 206 m.kr. aukning frá sama tímabili 2018. Hagnaður á fyrri árshelmingi ársins nam 455 m.kr. sem er 413 m.kr. hækkun á milli tímabila.
• Heildarfjárfestingar félagsins á tímabilinu námu 1.833 m.kr. þar af eru fjárfestingar í varanlegum rekstrarfjármunum og óefnislegum eignum (án sýningarétta) 1.006 m.kr. og fjárfesting í sýningarréttum 827 m.kr.
• Uppfærðar EBITDA horfur fyrir 2019 eru um 5,6 ma.kr. Horfur fyrir frjálst sjóðsflæði haldast óbreyttar en ljóst að félagið er að enda í neðri enda þess bils, 1,6 – 2,0 ma.kr. Útgefnar horfur vegna heildarfjárfestingar ársins haldast óbreyttar á bilinu 3,8-4,2 ma.kr.

Heiðar Guðjónsson, forstjóri:

„Afkoma síðasta ársfjórðungs eru vonbrigði. Fyrri spár stóðust engan veginn. Helstu ástæður eru verðlækkanir og frítilboð á fjarskiptamarkaði auk þess sem kostnaður á fjölmiðlamarkaði var umfram áætlanir.
Ný framkvæmdastjórn hefur komið miklu í verk frá því hún tók við eftir síðasta uppgjör í maí. Við höfum hagrætt mikið í rekstri, en kostnaðarlækkun mun nema yfir 50 milljónum á mánuði þegar hún kemur fram í vetur. Deildir hafa verið sameinaðar, millistjórnendum og almennu starfsfólki hefur fækkað auk þess sem endursamið hefur verið við birgja. Rekstraráætlanir hafa verið endurgerðar, sem mun skila sér í áreiðanlegri spám.
Allt fyrirtækið fór í gegnum stefnumótun í júní, með mikilli þátttöku starfsfólks, og niðurstaðan var einróma og skýr. Við höfum því samstilltan hóp sem vinnur nú að sameiginlegum markmiðum. Í framhaldi af stefnumótun og áherslubreytingum voru deildir færðar til í skipuriti og þannig styttast boðleiðir og samstarf verður enn betra. Tekjusvið eru núna skýrt afmörkuð og heyra beint undir forstjóra. Nýtt svið, samskiptasvið, sem markaðssvið rennur m.a. inn í hefur verið stofnað. Búið er að vinna nýja samskiptagreiningu og endurskoða vörumerki félagsins.
Áhersla vetrarins er að einfalda og bæta þjónustu við viðskiptavini. Við höfum frábærar vörur sem við erum stolt af og munum kynna frekar í vetur.“

Nánari upplýsingar veitir:
Bára Mjöll Þórðardóttir, forstöðumaður samskiptasviðs, barath@syn.is s. 66 99 299

Viðhengi